Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skora á stjórnvöld að bæta dýravelferð

02.12.2016 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: Matvælastofnun
Dýraverndarsamband Íslands skorar á yfirvöld að styrkja mannafla í þágu dýravelferðar og bæta verkferla svo hægt sé að taka fyrr í taumana þegar framleiðendur bregðast. Dýravinir og neytendur sem beindu viðskiptum sínum að Brúneggjum voru gróflega blekktir. 

Sambandið harmar skort á úrræðum og samskiptaleysi á milli opinberra stofnanna sem leiddu til þess að þeir sem brutu lög um dýravelferð og níddust á dýrum í gróðaskyni gátu haldið því áfram með fullri vitneskju stjórnvalda. Fjöldi dýra hafi goldið fyrir það með þjáningu og illri vist. Dýraverndarsambandið telur að eftirlitskerfið eigi að vera mun opnara svo neytendur fái stax að vita þegar gerðar eru alvarlegar athugasemdir við aðbúnað framleiðenda.

Hvetur sambandið neytendur til að velja dýraafurðir með tilliti til bestu velferðar og þrýsta á kröfu um upprunamerkingu frá bæjum.