Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skora á bæjarstjórn að lækka laun bæjarstjóra

Mynd með færslu
 Mynd: 360° vefur - ja.is
Íbúahreyfingin og Píratar skora á nýja bæjarstjórn í Mosfellsbæ að beita sér fyrir því að launasamningur bæjarstjóra verði endurskoðaður og laun hans lækkuð með hliðsjón af íbúafjölda og almennum launakjörum starfsmanna sveitarfélagsins.

Málefnasamningur Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs var formlega undirritaður í byrjun júní. Saman eru flokkarnir með fimm af níu bæjarfulltrúum og halda meirihlutasamstarfi sínu áfram sem hófst fyrst árið 2006. Íbúahreyfingin og Píratar buðu saman fram í Mosfellsbæ í síðustu sveitarstjórnarkosningum en fengu ekki mann kjörinn. 

Í tilkynningu frá Íbúahreyfingunni og Pírötum eru laun bæjarstjóra gagnrýnd. Þau séu rúmar 2,2 milljónir króna á mánuði. Þar af séu 1,2 milljónir föst laun, 403 þúsund föst yfirvinna og 130 þúsund í bifreiðahlunnindi. Þá fái bæjarstjórinn að auki tæpar 248 þúsund krónur í þóknun sem bæjarfulltrúi og tæpar 137 þúsund krónur fyrir setu í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Nýlega var greint frá því í fréttum að stjórnarmenn í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafi í fyrra fengið samtals ellefu milljónir fyrir í þóknun. Fleiri hafa gagnrýnt þetta og lagði Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins í Reykjavík, fram tillögu á fyrsta fundi borgarstjórnar um að   stjórnendum og kjörnum fulltrúum borgarinnar verði bannað að þiggja þóknun fyrir fundi í stjórnum, ráðum og nefndum sem haldnir eru á vinnutíma.  

Í fréttatilkynningu frá Íbúahreyfingunni og Pírötum segjast þau telja það vera forgangsatriði að laun bæjarstjóra verði lækkuð í upphafi nýs kjörtímabils enda ráðningarsamningur útrunninn. Lækka megi launin með því að fella niður fasta yfirvinnu bæjarstjóra, laun fyrir nefndarstörf á vinnutíma, biðlaun og endurskoða þá ákvörðun að laun bæjarstjóra fylgi launum ráðuneytisstjóra. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV