Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skólum í Þingeyjarsveit lokað

24.03.2020 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Ekkert kórónuveirusmit hefur greinst í Þingeyjarsveit - þrátt fyrir það hefur öllum skólum verið lokað fram yfir páska. Sveitarstjóri segir erfitt að halda úti skólastarfi í samræmi við fyrirmæli yfirvalda ásamt því að smit séu farin að greinast í nágrenninu.

Frá og með deginum í dag verður leik- og grunnskólum í Þingeyjarsveit lokað. Leikskólar verða þó opnir fyrir forgangshópa almannavarna. Þetta kemur fram á heimasíðu sveitarfélagsins. 

Staðan verður endurmetin eftir páska

„Þessi ákvörðun er tekin þar sem æ erfiðar reynist að halda úti skólastarfi í samræmi við fyrirmæli yfirvalda og einnig þar sem smit vegna COVID-19 eru farin að greinast í nágrenni við okkur“ segir Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri. Staðan verði endurmetin eftir páska. 

Nemendur í grunnskólum sveitarfélagsins, sem eru tveir, fá fjarkennslu og lögð verður áhersla á að halda eins mikilli rútínu og hægt er.