Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skólastjóri telur samræmda prófið ómarktækt

07.03.2018 - 16:20
Mynd með færslu
Samræmd próf. Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Skólastjóri telur að samræmd próf níunda bekkjar í íslensku séu ómarktæk. Prófin eru rafræn og til stóð að nemendur í níunda bekk á öllu landinu myndu taka prófið í morgun. Aðeins hluta nemendanna tókst að ljúka prófunum, sumum við erfiðar aðstæður.

Arnbjörg Stefánsdóttir, skólastjóri Brekkubæjarskóla á Akranesi, segir að það hafi gengið misvel hjá nemendum 9. bekkja í skólanum að taka prófið. „Það var hópur sem komst inn í prófið og gat haldist inni og lokið því. Síðan vorum við með nemendur sem voru mjög lengi að komast inn í prófið, allt upp undir hálftíma. Við vorum með nemendur sem duttu mjög oft út, það voru sérstaklega krakkarnir með stuðningsúrræðin. Einn nemandi lenti í því að í miðjum prófatíma kom upp að prófinu var lokið þegar því var ekki lokið.“

Nemendur þurftu að byrja prófið upp á nýtt

Vegna þess hve margir nemendur lentu í vandræðum við að taka prófið hafði það truflandi áhrif á hina sem þó komust inn í prófið. „Það var náttúrulega truflun í stofunni. Starfsfólk í skólanum var hlaupandi á milli borða að hjálpa þeim að logga sig inn aftur og komast inn í prófin sín aftur. Oft vistuðust ekki svörin þeirra og þau þurftu að byrja upp á nýtt. Að mínu mati er þetta próf algjörlega ómarktækt og Menntamálastofnun verður að finna út úr því hvernig þau ætla að leysa þetta.“ 

Próf á morgun og hinn samkvæmt áætlun

Í tilkynningu frá Menntamálastofnun eftir hádegi í dag segir að prófakerfið hafi átt að færast yifr á afkastameiri vefþjón en að vegna tæknilegra vandamála hafi sú yfirfærsla misfarist. Um klukkan 10 þegar ljóst var hve umfang vandans væri mikið var ákveðið að fresta prófinu. Talið er að búið sé að greina vandamálið og er áætlað að nemendur í 9. bekk taki samræmt próf í stærðfræði á morgun og í ensku á föstudag. 

„Haft verður að leiðarljósi að nemendur njóti alls vafa og að aðstæður við töku prófsins í morgun bitni ekki á þeim,“ segir í tilkynningunni. Fulltrúar Menntamálastofnunar ætla í næstu viku að funda með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis og Skólastjórafélags Íslands um lausn málsins. „Menntamálastofnun biður alla hlutaðeigandi afsökunar á þeim vanda sem upp kom við fyrirlögn íslenskuprófsins í morgun,“ segir í tilkynningunni.