Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skólastjóri rekinn fyrir að afneita helförinni

10.07.2019 - 01:56
epa07542547 Participants of the 28th march of the living in the former German-Nazi extermination camp Auschwitz in Oswiecim, Poland, 02 May 2019. A few thousand people, mostly Jewish and Polish youth, will cross the three-kilometer 'death road' between the former German Nazi death camp Auschwitz I to Auschwitz II ? Birkenau in Oswiecim, to honour Holocaust victims. Over 1.1 million people, mostly Jews, lost their lives in Auschwitz death camps during the World War II. On Holocaust Remembrance Day on 24 April, Israel remembers the 6-million Jews who were exterminated at the hands of the Nazis during World War II.  EPA-EFE/ANDRZEJ GRYGIEL POLAND OUT
Frá minningarathöfn við útrýmingarbúðir nasista í Auschwitz í Póllandi, þar sem um 1,1 milljón gyðinga týndu lífi sínu. Alls myrtu nasistar um 6 milljónir gyðinga í helförinni.  Mynd: epa
Skólastjóri gagnfræðaskóla í Flórídaríki var rekinn frá skólanum á dögunum fyrir að afneita helförinni. Skólastjórinn, William Latson að nafni, sagði foreldri nemanda við skólann að hann hygðist sýna hlutleysi, hér eftir sem hingað til, varðandi það, hvort helför gyðinga í síðari heimstyrjöldinni hefði átt sér stað eða ekki og sagðist ekki treysta sér til að segja að „helförin hafi verið raunverulegur, sögulegur atburður.“

Samkvæmt frétt The Palm Beach Post lét skólastjórinn þessi ummæli falla í tölvupóstsamskiptum við foreldri, sem vildi fullvissa sig um að helförin væri til umfjöllunar í aðalnámsskrá skólans. Í svari sínu, sem birt er í blaðinu, segir Latson skólann kenna ýmislegt um helförina, en að kennslu um það efni væri „ekki þröngvað upp á einstaklinga, þar sem við höfum öll sömu réttindi en ekki öll sömu trúarbrögð.“

Helförin hvorki trúarbrögð né réttindi

Foreldrið bað um skýringu á þessu svari og sagði helförina „raunverulegan, sögulegan atburð, [en hvorki] réttindi né trúarbrögð.“ Svar skólastjórans við þessu er svohljóðandi:

„Ekki trúa allir að helförin hafi átt sér stað. Ég get ekki staðhæft að helförin sé raunverulegur, sögulegur atburður, því ég er ekki í stöðu til þess sem starfsmaður skólayfirvalda. Ég leyfi að upplýsingar séu veittar um helförina og leyfi nemendum og foreldrum að gera upp hug sinn um hana út frá þeim.“

9.000 kröfðust brottvikningar skólastjórans

Um 9.000 manns skrifuðu undir áskorun á skólayfirvöld þess efnis, að Latson yrði látinn fara og á mánudag tilkynnti stjórn skólans að honum hefði verið sagt upp störfum og að uppsögnin hefði þegar tekið gildi. Í yfirlýsingu frá skólanum segir að skólastjórinn hafi „sýnt alvarlegt dómgreindarleysi“ og að staðhæfingar hans nytu hvorki stuðnings skólayfirvalda né stjórnar skólans.

Latson sendi svo frá sér afsökunarbeiðni, þar sem hann sagði yfirlýsingar sínar í tölvupóstunum „ekki gefa rétta mynd af faglegum og persónulegum metnaði [hans] til að upplýsa alla nemendur um grimmdarverk helfararinnar.“

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV