Skólastjóraskipti eftir sálfélagslega úttekt

21.05.2018 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson - Mýrdalshreppur
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur gengið frá samkomulagi við skólastjóra Víkurskóla um að hann láti af starfi um næstu mánaðamót. Þetta er niðurstaða sveitarstjórnar eftir að hún lét fara fram sálfélagslega úttekt á líðan starfsfólks í skólanum. Sú úttekt var gerð vegna talsverðrar ólgu sem kom upp í samfélaginu á vordögum og tengdist Víkurskóla að því er fram kemur á vef sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn birti tilkynningu um þetta á vef sveitarfélagsins fyrir helgi. Fjallað var um þetta á vef Fréttablaðsins í dag. Þar sagðist Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, litlu vilja við bæta en staðfesti að óánægja hefði verið með ákveðna þætti hjá yfirstjórn skólans. 

Elín Einarsdóttir, oddviti sveitarstjórnar, sagði í samtali við fréttastofu RÚV að brugðist hefði verið við ólgu og þetta væri niðurstaðan. Hún sagði að trúnaður ríkti um efni samkomulagsins og því erfitt að tjá sig frekar um það.

Víkurskóli er sameinaður grunn-, leik-, og tónlistarskóli Mýrdalshrepps. 

Sveitarstjórn hefur falið sveitarstjóra að auglýsa eftir skólastjóra og kennara. Skólinn hefur verið undirmannaður um eina stöðu og við bætist að maki skólastjóra ákvað að láta af störfum þegar gengið var frá starfslokum skólastjórans.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi