Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skólastjórar vilja fá framhaldsmenntun metna

13.10.2018 - 17:14
Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV/Landinn
Ársfundur Skólastjórafélags Íslands mótmælir því í ályktun að framhaldsmenntun skólastjórnenda skuli ekki vera metin til jafns við undirmenn þeirra. Ársfundurinn fór fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í morgun.

Félagið mótmælir því harðlega í ályktun að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga skuli ekki meta starfsreynslu við kennslu þegar kennarar eru ráðnir til stjórnunarstarfa í grunnskólum. „Sérstaklega er þetta athyglisvert í ljósi þess, að við ráðningar í störf skólastjórnenda í grunnskólum, er kennslureynsla ávallt talin kostur eða skilyrði. Í ljósi þessa er það algjörlega óásættanlegt að starfsreynsla við kennslu skuli ekki metin sem ávinningur við launaröðun þegar kennarar ráða sig sem skólastjórnendur við grunnskóla," segir í ályktun fundarins. 

Fundurinn ályktaði einnig um launaþróun skólastjórnenda. Í þeirri ályktun segir að ársfundurinn geri alvarlega athugasemdir við störf og viðhorf samninganefndar sveitarfélaganna enda sé ljóst að skólastjórnendur hafi dregist aftur úr í launum á undanförnum árum. „Ljóst er að í einstökum tilfellum gætu skólastjórnendur fengið hærri laun sem kennarar við sama skóla, þrátt fyrir ábyrgð og lagalegar skyldur í störfum sínum sem skólastjórnendur. Kanna þarf hvernig launagreiðslum er háttað til einstaklinga í sömu skólum, félagsmanna SÍ (Skólastjórafélags Íslands) og FG (Félags grunnskólakennara), með tilliti til verðmætis starfa, jafnréttis og lagalegrar ábyrgðar einstaklinga í störfum þeirra,“ segir í ályktun. Dæmi séu um að launamunur skólastjórnenda og kennara í sömu skólum sé óverulegur og sú staða hafi komið upp að farsælir skólastjórnendur hafi horfið aftur til kennslu af þessum sökum. 

Stjórn Kennarasambands Íslands hefur samþykkt að heimila Skólastjórafélagi Íslands að leita lögfræðilegrar ráðgjafar vegna hugsanlegra brota á á lögum um jafnrétti og mismunun við greiðslu launa til skólastjóra hjá einstökum sveitarfélögum og er því fangað í ályktun félagsins. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir