Fyrstu árin var hann lagður í einelti, skólafélagar hans gerðu grín að því að hann væri haltur og hrintu honum oft niður stigann þegar hópurinn var á leið út í frímínútur.
„Eineltisáætlun, mér finnst það vanta svolítið. Að virkja öll verkferli sem eiga löglega að eiga sér stað þarna í stað þess að henda þessu bara svolítið út í horn. Gerandinn, það var ekki einu sinni talað við foreldra hans og það var í raun ekki gert neitt í þessu.“
Hann og foreldrar hans vildu að bekkurinn fengi fræðslu um það sem hann væri að fást við en Eiður segir skólann ekki hafa tekið vel í það.
„Það var boðist til að koma frá CP-félaginu, að fræða bara án endurgjalds, skólinn þurfti ekki að gera neitt nema samþykkja þetta en þeim fannst þetta bara eitthvað skrítið. Þau vildu einblína meira á einhverfuna mína en eineltið var að eiga sér stað út af hreyfihömluninni. Það vissi enginn um einhverfuna, ég er að upplýsa bekkinn minn fyrst í þessu viðtali um hana. Já, ég er einhverfur.“
Hann segir kennara alltaf vera að reyna sitt besta, hann taki ofan fyrir þeim, en að þeir hefðu þurft að grípa inn í og stöðva eineltið sem viðgekkst meðal annars inni í bekknum.
Einangrandi að borða í kennslustofunni
Hann var settur í minni bekk þar sem eru einungis nemendur með einhvers konar fötlun og segir að stundum fari nemendur ekki fram í mat, borði inni í kennslustofunni. „Mér finnst það alls ekki sniðugt, mér finnst það mjög einangrandi.“ Hann hefði gjarnan viljað vera í sínum bekk áfram enda á hann ekki í vandræðum með að læra, stefnir raunar á að láta að sér kveða á sviði stjórnmálanna þegar hann eldist. Nú fær hann að koma inn í gamla bekkinn sinn nokkrum sinnum í viku. „Bekkurinn þroskaðist mjög mikið, bara öll, og þau taka mjög vel á móti mér þegar ég fer í þessa tvo tíma. Þetta er alveg æðislegt núna. Það voru aldrei nein vandamál inni í matartíma þess vegna fannst mér mjög skrítið að vera að láta okkur borða inni í bekknum.“
Rannsóknir segja okkur að stefnan virkar ekki í dag
Niðurstöður rannsókna og skýrslna lýsa sama veruleika og Steinunn gerði. Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar kynnti í fyrra niðurstöður úttektar á stefnunni hér. Þar kom fram að kennarar séu sammála um markmið stefnunnar en að þörf sé á skýrari leiðsögn um hvernig skuli hrinda henni í framkvæmd. Þá segir að nokkuð sé um að mismunandi skilningur sé lagður í hugtakið menntun án aðgreiningar og að flestir sem sinna menntamálum telji núverandi tilhögun fjárveitinga og reglur um ráðstöfun fjár hvorki taka mið af jafnræðissjónarmiðun né hugmyndum um skilvirkni og styðji ekki við skóla án aðgreiningar. Margt starfsfólk talaði um ófullnægjandi stuðning og margir efuðust um að grunnmenntun þeirra eða tækifæri til faglegrar starfsþróunar nýttust sem skyldi til undirbúnings fyrir skólastarf án aðgreiningar.
Starfið breyst mikið vegna stefnunnar
Starfshópi um mat á framkvæmd skóla án aðgreiningar var komið á fót árið 2013 vegna ákvæðis í kjarasamningi grunnskólakennara um breytt hlutverk kennara í kjölfar þess að stefnan var innleidd. Í skýrslu starfshópsins segir að kennarar telji almennt að starf þeirra hafi breyst mikið vegna hennar, meira álag fylgi starfinu, aukinnar sérþekkingar sé krafist og mikill tími fari í skýrsluskrif og fundasetu um málefni einstakra nemenda á kostnað annarra. Kannanir sýndu að helmingur kennara taldi mikilvægt að börn sæktunám í heimaskóla óháð fötlun, heilsufari eða íslenskukunnáttu en einungis 44% þeirra töldu að stefnan hefði bætt skólastarf. Niðurstaða nýlegrar meistararannsóknar Gunnrúnar Theodórsdóttur í félagsráðgjöf var á sömu nótum. Innleiðing stefnunnar hafi ekki gengið sem skyldi því fjármagn fylgdi ekki. Ekki fái allir nám við hæfi.