Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skólarnir geta ekki mætt öllum börnum

Mynd úr safni - Mynd: RÚV / RÚV
Skólarnir geta ekki komið nægilega til móts við þarfir barna með fötlun og sum hver verða munaðarlaus í kerfinu, líður illa í grunnskólanum sínum, fá ekki stuðning og einangrast jafnvel félagslega en uppfylla samt ekki skilyrðin til að komast inn í sérskóla. Á að halda í þessa stefnu, sem meðal annars er kveðið á um í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, samningi sem íslensk stjórnvöld hafa fullgilt. Eiga öll börn heima í almennum grunnskólum? Hvað er þeim fyrir bestu?

Stefnan gengur ekki upp í dag

Lögbundinni stefnu um skóla án aðgreiningar er ekki framfylgt nægilega vel í skólum landsins. Það vantar stuðning, fagfólk, fjármagn og leiðbeiningar. Þetta kom fram í máli margra þeirra sem fluttu erindi á málþingi Öryrkjabandalags Íslands um skóla án aðgreiningar sem fram fór á Hilton hótel Nordica í gær. Niðurstöður skýrslna sem komið hafa út á undanförnum árum lýsa sama vanda.

Fyrst þarf að laga almenna kerfið, svo má útrýma sérskólum

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar
 Mynd: RÚV
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

„Eins og staðan er í menntamálum í dag þá þurfum við sérskóla vegna þess að almenni skólinn er ekki að sinna skyldum sínum. Það er ekki næg sérfræðiþjónusta og það er ekki verið að mæta nemendum með sérþarfir með fullnægjandi hætti í almennu skólunum þannig að ég er ekki fylgjandi því að sérskólum verði lokað á morgun en við eigum að byggja upp almenna kerfið þannig að allir geti fengið þjónustu við hæfi með viðeigandi aðlögun þar inni. Þar með þurfum við ekki lengur sérskóla nema hugsanlega í einhverjum undantekningartilvikum, tímabundið þegar eitthvað kemur upp á. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að við höfum undirgengist mannréttindaskuldbindingar og nú síðast fullgiltum við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem kveður mjög skýrt á um réttinn til skóla án aðgreiningar, að hvert barn eigi að geta sótt nám í sínum heimaskóla í sinni heimabyggð og fengið viðeigandi stuðning og aðstoð þar.“ Þetta segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, kennari og formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar. Hún hefur reynslu af bæði sérskólum og almennum grunnskólum í gegnum dætur sínar. Hún segir mikið vanta upp á að skólarnir geti boðið öllum börnum þann stuðning sem þau þurfa óháð fötlun. Stefnunni um skóla án aðgreiningar hafi ekki fylgt aukið fjármagn eða sérfræðiþjónusta. Stjórnvöld verði að átta sig á því að mannréttindi kosti peninga. „Ef mann ætla að uppfylla þennan þátt þá þarf að setja fjármagn inn í sérfræðiþjónustu skólanna, fyrr verður ekki hægt að loka sérskólunum þannig að á meðan ástandið er svona er ég auðvitað fylgjandi sérskólunum því mikilvægast af öllu er að börnunum líði vel og foreldrum þeirra og foreldrarnir sækjast í að koma börnunum í sérskóla vegna þess að börnunum líður ekki nógu vel í almennu skólunum.“ 

Mikilvægt að tilheyra samfélaginu

Stillur úr umfjöllun Kveiks um stöðu kennara á Íslandi.
 Mynd: Kveikur - RÚV

Hún segir mikilvægt að börn fái að tilheyra samfélaginu án aðgreiningar, áður hafi þótt sjálfsagt að loka fötluð börn inni á stofnunum í útjaðri borga. Sérskólar og aðgreind úrræði séu angi af þessari stefnu. Hún segir aftur á móti að það geti verið þörf á einhvers konar aðgreiningu innan heimaskólans. Nemendur með einhverfu sem eiga erfitt með áreiti eigi til dæmis að geta fengið að læra í sérrými, þetta sé skýrt í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hver og einn nemandi eigi rétt á viðeigandi úrræðum innan síns skóla. „Hugmyndin um að skóli án aðgreiningar felist í því að taka 50 barna hóp, loka hann inni í einu rými og ætla öllum það sama, það er ekki það sem skóli án aðgreiningar gengur út á. Hann gengur einmitt út á að sérþörfunum sé mætt inni í almenna skólanum. Leikskólinn gerir þetta þannig, börn með sérþarfir fara í sérrými og kannski nokkur önnur börn með og njóta góðs af.“ 

Sár reynsla af skóla aðgreiningar

Ágúst Kristmanns, faðir drengs með fötlun, þurfti að berjast fyrir því að sonur hans kæmist í sérskóla. Í bréfi sem hann skrifaði menntamálaráðherra fyrir nokkrum árum síðan lýsir hann því hvernig honum finnst sonur hans skikkaður til aðgreiningar í almenna skólakerfinu. Hér er brot úr því bréfi. 

„Ef við ættum að skjóta á hvar hann er staddur námslega og félagslega þá myndum við skjóta á að hann sé staddur í 2. bekk. Sjáið þið fyrir ykkur nemenda í 2. bekk og nemenda í 6. bekk eiga góða samleið? Kópavogsbær og skólinn hafa séð um son okkar eftir bestu getu miðað við aðstæður. En hvernig á skólinn að geta tekið á félagslegri stöðu hans? Hann fær alltaf að vera með en hann dregur sig úr vegna þess að hann finnur til vanmáttar og sér að hann getur þetta ekki. Börnum eins og honum ber að hafa val en hafa það einfaldlega ekki eins og staðan er í dag og lítum við svo á að það sé réttur drengsins að ganga í venjulega skóla en ekki skylda. Höfum við því upplifað það að menntastefnan „skóli án aðgreiningar” hefur snúist upp í andhverfu sína í okkar tilfelli. Núverandi úrræði henta honum einfaldlega ekki og fyrir vikið er hann að verða af lögbundnum rétti sínum til viðeigandi úrræða og menntunnar. Hann er ca 20% með bekknum og þá aðallega í verklegum greinum. Að þessum sökum lítum við svo á að Ingi sé ekki í skóla án aðgreiningar, heldur skóla aðgreiningar. Skóli aðgreiningar er þegar sonur minn eru neyddur í sinn heimaskóla og er aðgreindur frá ófötluðum börnum, hann tekinn úr bekk til að fara til sérkennara einn, er tekinn úr bekk til að fara í námsver eða er alltaf með starfsmann sér við hlið þegar hann fær að vera með inni í bekk eða þegar það eru frímínútur og hann getur ekki tekið þátt í fótbolta, klifurgrind eða eltingarleik í frímínútum, eða þegar allir aðrir eru að fara að gera eitthvað allt annað eftir skóla þannig að hann þarf að labba einn heim og leika við mun yngri systur eða fara í sund með afa sínum af því að hann fær ekki að fara í sund í skólanum. Ég hef til dæmis þurft að fara inn í sundrútuna og bera hann út úr henni grátandi með ekka af því að hann vildi fá að fara með bekkjabræðrum sínum í sund. Þann dag grét ég líka mikið af sorg.“

Bryndís telur að öll börn eigi heima í almennum skólum, fá þá þjónustu sem þau þurfa þar en hvernig á að taka á vanda eins og þeim sem Ágúst lýsir? 

„Það á að leysa með sérfræðiþjónustu innan skóla þar sem kennsla í félagsfærni, bæði fyrir fötluð og ófötluð börn felur það í sér að menn læra að hafa alla með og vinna með þessa þætti. Það er ekki mikið unnið með það í dag.“

„Þú getur ekki verið bæði fremst og aftast í strætó“

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Steinunn Mar hefur unnið sem kennari í almennum grunnskólum og í sérskóla. Hún vinnur nú með börnum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Steinunn Mar er sérkennari og hefur reynslu af því að starfa í almennum skólum og sérskólum. Hún segir stefnuna um skóla án aðgreiningar ekki virka í dag. Kennarar séu að sligast undan álagi, veikindi mikil, sjúkrasjóðurinn að tæmast í haust. Allt utanumhaldið og kröfur um einstaklingsmiðaða nálgun séu þungar fyrir kennara sem sumir óski einskis heitar en að fá tíma til að sinna kennslu. 

„Þegar þessi stefna er sett á laggirnar er miðað við að það komi fleira fagfólk inn í skólanna sem hefur svo ekki skila sér. Upplifun kennarans er að hann sé að slökkva elda allan daginn og það er óskaplega lýjandi. Auðvitað eiga börnin rétt á sínu og fá ekki þá þjónustu. Við höfum ekki mannskap til að sinna því sem við vildum gjarnan geta sinnt. Það er stöðug mannekla og enginn peningur. Þetta er alltaf viðhorfið þegar við tölum um að það þyrfti að vera stuðningsfulltrúi í hverjum árgangi: Nei, það eru ekki til peningar.“ 

Það vanti alls staðar fagfólk, þroskaþjálfa, talmeinafræðinga, námsráðgjafa og fleiri. Eins og staðan sé í dag virki stefnan ekki, það þurfi innspýtingu ætlum við að halda okkur við hana. „Þú getur ekki verið bæða fremst og aftast í strætó,“ segir hún. 

Þörf á skóla A, skóla B og skóla C

En hvað er til ráða? Steinunn telur að það þurfi eitthvert millistig á milli almenns grunnskóla og sérskóla. 

„Ef við hefðum fleiri úrræði fyrir krakka sem eru alltaf einn og tveir og þrír alls staðar, sem eiga kannski ekki heima í skóla A og ekki í skóla B en þyrfti að vera í skóla C. Það myndi leysa mikinn og víðtækan vanda.“

Hún segist hafa setið marga fundi þar sem sálfræðingur eða læknir segir rétt að ákveðið barn fari í sérskóla en þeir eru bara tveir í Reykjavík; Klettaskóli og Brúarskóli. Klettaskóli er sérskóli á grunnskólastigi sem þjónar öllu landinu. Brúarskóli er hugsaður sem tímabundið úrræði fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum-, hegðunar eða félagslegum erfiðleikum. 

Steinunn segir að málið sé að þessir sérskólar henti ekki alltaf börnum sem þó rekist illa innan hefðbundna skólakerfisins. Það vakni alltaf þessi spurning: „Í hvaða sérskóla á barnið þá að fara?“ 

Grunnskólabörn lesa. Úr umfjöllun Kveiks um læsi.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Þrífast allir inni í venjulegri kennslustofu?

„Það er þetta millistig sem við erum oft í vandræðum með, nemandi sem rekst illa inni í bekk en stundum þyrfti kannski bara að taka tillit til þess að hann á erfitt með að vera með 120 öðrum börnum að borða í hádeginu. Ef við hefðum skóla með 50 eða 80 börnum þar sem gætu kannski verið fimm til átta börn að borða saman í hádeginu myndi þessu barni kannski ganga ágætlega í skóla því það kannski kvíðir alltaf hádegismatnum. Ef við hefðum fleiri minni skóla þar sem væru 50-60 börn og þá erum við ekki að tala um börn sem glíka við mikla hegðunarörðugleika eða erfiða geðsjúkdóma heldur þessi börn sem eiga almennt undir högg að sækja í almenna skólakerfinu en þurfa kannski ekki að fara í sérskóla þar sem þau fá manninn með sér.“ 

Þannig að þér finnst sú hugmyndafræði sem Bryndís lýsti og felur í sér að allir ættu að passa inn í heimaskólann, ekki ganga upp í raun jafnvel þó að fjárstuðningur og annar stuðningur væri aukinn?

„Mér finnst í raun að fókusinn okkar eigi að vera á það hvar barnið myndi blómstra, hvar því myndi líða vel. Sem foreldri myndi ég hugsa: Hvar ætti barnið mitt heima þar sem það kæmi það heim að loknum skóladegi og liði vel? Sá sem er alltaf slakastur í bekknum og getur aldrei gert eins og hinir, það er fátt meira niðurdrepandi. Það barn myndi kannski blómstra í sérskóla en þá kannski stöndum við frammi fyrir því að barnið er ekki nógu mikið fatlað til að komast inn í Klettaskóla og þarna förum við aftur í það að tala um að það þyrfti að vera millistig. Sumir hafa sent börnin sín í sérskóla þar sem þau blómstra, aðrir sjá ekki fram á að þeim líði vel þar. Það er hægt að ræða þetta endalaust fram og aftur en það getur vel verið að barnið eigi rétt á að vera í sínum heimaskóla hinum megin við götuna sem það býr í en að það myndi henta betur að keyra það í annan skóla“

Hvorki hádegis né kaffihlé

Steinunn lýsti erfiðri stöðu í grunnskólunum en staðan í sérskólum er ekki alltaf góð heldur og dæmi um að mannekla sé svo mikil að kennarar fái hvorki hádegishlé né kaffihlé, geti tæpast brugðið sér á klósettið nema að fá leyfi. Þetta segir Steinunn að hafi átt við í Brúarskóla. Þá segir hún flæðið milli skóla slæmt, það komi fyrir að börn dagi uppi í sérskólum, séu tilbúin að fara aftur í sinn gamla skóla en þá sé skólinn ekki tilbúinn til að taka á móti þeim. Bryndís segist hafa upplifað að í sérskólum sé mikil áhersla á félagslega þætti en námið sitji frekar á hakanum, þetta hafi verið reynsla hennar á sínum tíma en hugsanlega hafi það breyst. Sara Dögg Svanhildardóttir, fagstjóri í Arnarskóla, nýjum sérskóla fyrir börn með þroskafrávik, sem sækist eftir grunnskólaleyfi, sagði í fyrirlestri sínum að það væri alltaf lögð áhersla á að skólar fylgdu hinni heilugu aðalnámskrá og að stundum skorti skilning á því að börnin þyrftu að læra ýmis grunnatriði, svo sem að biðja um vatn. Arnarskóli er sérstakur að því leyti að skóli og frístund renna saman, sumum hentar kannski að fara í frístund á morgnana, öðrum seinni partinn og tekið er tillit til þess. Námið er einstaklingsmiðað og starfsmannaveltu er haldið í lágmarki svo börnin þurfi ekki að kynnast nýjum og nýjum starfsmönnum. Skólinn er opinn allt árið, líka á sumrin. Börnin fara í frístund, sumarfrístund og skóla á sama stað og lagt er upp með að fagfólk sem sinnir þeim reglulega, svo sem talmeinafræðingar, komi líka í skólann til að koma í veg fyrir óþarfa rask. 

Ráðherra segir báða kosti mikilvæga

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir

Menntamálaráðherra, lagði í erindi sínu á málþinginu áherslu á að foreldrar ættu val, sérskólar væru mikilvægur valmöguleiki. Hún telur að það þurfi að skoða hvernig megi styðja betur við bæði kerfin. Sigrún Birgisdóttir framkvæmdastjóri einhverfusamtakanna sagði líka að þetta val væri mikilvægt. Sum börn geti ekki verið í almennum skólum þó stærstur hluti þeirra geti það. 

Skólinn tók ekki á eineltinu 

Allt snýst þetta um börnin og velferð þeirra. Reynsla þeirra er eflaust mjög mismunandi og á hana þarf að hlusta. Eiður Atli Axelsson var fulltrúi ungu kynslóðarinnar á málþinginu og deildi sinni reynslu. Hann er á fjórtánda ári, einhverfur og með CP eða svokallaða heilalömun, honum finnst það heiti að vísu sérlega óheppilegt. Hann gengur í almennan grunnskóla en það hefur ekki alltaf verið tekið út með sældinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Fulltrúi ungu kynslóðarinnar segir mikilvægt að krakkar láti í sér heyra.

Fyrstu árin var hann lagður í einelti, skólafélagar hans gerðu grín að því að hann væri haltur og hrintu honum oft niður stigann þegar hópurinn var á leið út í frímínútur. 

„Eineltisáætlun, mér finnst það vanta svolítið. Að virkja öll verkferli sem eiga löglega að eiga sér stað þarna í stað þess að henda þessu bara svolítið út í horn. Gerandinn, það var ekki einu sinni talað við foreldra hans og það var í raun ekki gert neitt í þessu.“ 

Hann og foreldrar hans vildu að bekkurinn fengi fræðslu um það sem hann væri að fást við en Eiður segir skólann ekki hafa tekið vel í það. 

„Það var boðist til að koma frá CP-félaginu, að fræða bara án endurgjalds, skólinn þurfti ekki að gera neitt nema samþykkja þetta en þeim fannst þetta bara eitthvað skrítið. Þau vildu einblína meira á einhverfuna mína en eineltið var að eiga sér stað út af hreyfihömluninni. Það vissi enginn um einhverfuna, ég er að upplýsa bekkinn minn fyrst í þessu viðtali um hana. Já, ég er einhverfur.“ 

Hann segir kennara alltaf vera að reyna sitt besta, hann taki ofan fyrir þeim, en að þeir hefðu þurft að grípa inn í og stöðva eineltið sem viðgekkst meðal annars inni í bekknum.

Einangrandi að borða í kennslustofunni

Hann var settur í minni bekk þar sem eru einungis nemendur með einhvers konar fötlun og segir að stundum fari nemendur ekki fram í mat, borði inni í kennslustofunni. „Mér finnst það alls ekki sniðugt, mér finnst það mjög einangrandi.“ Hann hefði gjarnan viljað vera í sínum bekk áfram enda á hann ekki í vandræðum með að læra, stefnir raunar á að láta að sér kveða á sviði stjórnmálanna þegar hann eldist.  Nú fær hann að koma inn í gamla bekkinn sinn nokkrum sinnum í viku. „Bekkurinn þroskaðist mjög mikið, bara öll, og þau taka mjög vel á móti mér þegar ég fer í þessa tvo tíma. Þetta er alveg æðislegt núna. Það voru aldrei nein vandamál inni í matartíma þess vegna fannst mér mjög skrítið að vera að láta okkur borða inni í bekknum.“ 

Rannsóknir segja okkur að stefnan virkar ekki í dag

Niðurstöður rannsókna og skýrslna lýsa sama veruleika og Steinunn gerði. Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar kynnti í fyrra niðurstöður úttektar á stefnunni hér. Þar kom fram að kennarar séu sammála um markmið stefnunnar en að þörf sé á skýrari leiðsögn um hvernig skuli hrinda henni í framkvæmd. Þá segir að nokkuð sé um að mismunandi skilningur sé lagður í hugtakið menntun án aðgreiningar og að flestir sem sinna menntamálum telji núverandi tilhögun fjárveitinga og reglur um ráðstöfun fjár hvorki taka mið af jafnræðissjónarmiðun né hugmyndum um skilvirkni og styðji ekki við skóla án aðgreiningar. Margt starfsfólk talaði um ófullnægjandi stuðning og margir efuðust um að grunnmenntun þeirra eða tækifæri til faglegrar starfsþróunar nýttust sem skyldi til undirbúnings fyrir skólastarf án aðgreiningar. 

Starfið breyst mikið vegna stefnunnar

Starfshópi um mat á framkvæmd skóla án aðgreiningar var komið á fót árið 2013 vegna ákvæðis í kjarasamningi grunnskólakennara um breytt hlutverk kennara í kjölfar þess að stefnan var innleidd. Í skýrslu starfshópsins segir að kennarar telji almennt að starf þeirra hafi breyst mikið vegna hennar, meira álag fylgi starfinu, aukinnar sérþekkingar sé krafist og mikill tími fari í skýrsluskrif og fundasetu um málefni einstakra nemenda á kostnað annarra. Kannanir sýndu að helmingur kennara taldi mikilvægt að börn sæktunám í heimaskóla óháð fötlun, heilsufari eða íslenskukunnáttu en einungis 44% þeirra töldu að stefnan hefði bætt skólastarf. Niðurstaða nýlegrar meistararannsóknar Gunnrúnar Theodórsdóttur í félagsráðgjöf var á sömu nótum. Innleiðing stefnunnar hafi ekki gengið sem skyldi því fjármagn fylgdi ekki. Ekki fái allir nám við hæfi.