Skógarhögg er Norðmönnum í blóð borið

Mynd: pexels.com / pexels.com

Skógarhögg er Norðmönnum í blóð borið

06.07.2017 - 13:40

Höfundar

Bókin Hel Ved eftir norska skáldsagnahöfundinn Lars Mytting er ekki skáldverk. Hún er yfirlit yfir menningarlegt mikilvægi skógarhöggs í Noregi ásamt nákvæmum lýsingum um aðferðir við að höggva, stafla og þurrka eldivið en hefur engu að síður selst í mörg hundruð þúsund eintökum og verið þýdd á 18 tungumál.

Hel Ved er mikið nákvæmnisverk, þar úir og grúir af upplýsingum um það hvernig best sé að höggva eldivið, hvaða axaframleiðendur eru bestir og hversu margar kílóvattsstundir verða til við að brenna birkitré ef miðað er við 20 prósent raka og brennsluofn með 75 prósent skilvirkni. 

„Við höfum alltaf þurft að hafa eldivið, sérstaklega á svæðum þar sem frostið nær 30-40 gráðum. Þetta snýst um að lifa eða deyja,“ segir Silje Beite Løken, menningar- og upplýsingafulltrúi í sendiráði Noregs á Íslandi. Silje segir að það sé sérstaklega ríkt meðal eldri kynslóða að vera með arinn í húsinu geta alltaf notað hann til kyndingar ef eitthvað kæmi upp á. „Þessi kynslóð upplifði það þegar stríðið skall á og þá var straumurinn notaður í annað. Þá þurfti fólk að grípa til eldiviðs og torfs til að fá hita í húsin.“

Skandinavísk tískubylgja

Utan Skandinavíu hefur norræn menning og lífstíll víða tekið sér bólfestu undanfarið, einkum í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem hið danska hygge og sænska lagom eru dæmi um hugtök sem heillar fólk. Þótt gjarnan sé að finna misnotkun eða rangtúlkun þessara norrænu hugtaka, sem eiga sér djúpar menningarlegar rætur, má segja að aukinn áhugi á skandinavískri hugmyndafræði  sé hugsanlega tilkominn vegna þess að nútíminn krefst mikils af manni, vinnan fyllir mann streitu og nútímatæknin gerir mann ringlaðan og svo framvegis, ástæðurnar eru margar. Hvað sem því líður er hinn skandinavíski lífstíll orðinn að tískuvöru.

Skógarlíferni og naumhyggja engin nýlunda

Einfaldur og naumhyggjulegur lífstíl, þvert á hraða nútímatækninnar og borgarlífsins, er ekki nýtt fyrirbæri til að sækjast eftir. Í Bandaríkjunum um miðja 19. öld fór náttúrufræðingurinn og heimspekingurinn Henry David Thoreau, eins og frægt er, út í skóg, byggði sér lítinn kofa við vatn og lifði á náttúrunni með eins lítilli hjálp tækninnar og hægt var.

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons
Endurgerður kofi Thoreaus í Walden.

Thoreau skrifaði um reynslu sína á afar nákvæman og ljóðrænan hátt sem varð að hans frægasta verki, Walden or life in the woods, eða lífið í skóginum. Gjörningur hans var, líkt og segja mætti um skógarhögg, hygge og hinn skandinavíska lífstíl nú, viðbragð við hraðri tækniþróun og borgvæðingu. Flutningar Thoreaus var viðbragð við iðnvæðingu, sem var í mikilli uppsiglingu. Aukin verslun og tækninotkun var honum ofviða og hann vildi sýna fram á að allt þetta væri óþarfi til þess að lifa vel. Í stað þess að vinna í 3 daga til þess að safna pening fyrir lestarmiða til næstu borgar ætti fólk að nýta þessa 3 daga til þess að ganga sömu vegalengd. Tengjast náttúrunni, hlusta og taka eftir umhverfinu.

Bók Myttings, Hel Ved, er að mörgu leyti svipað viðbragð og Thoreaus við tækni og alþjóðavæðingu þar sem hann sækir í menningararfinn, einfaldari lífsstíl, gamalt handverk og bætt tengsl við náttúru og sjálfan sig.

Silje Beite Løken menningar- og upplýsingafulltrúi hjá Norska sendiráðinu var gestur Tengivagnsins 5. júlí og ræddi um skógarhögg, norska menningu og skandinavíska tískubylgju.