Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skógarhögg bænda í Amazon ekki refsivert

01.03.2018 - 04:53
epa04260067 General view over a part of Amazon river outskirt of Manaus, Amazon region, Brazil, 15 June 2014. Manaus will host the FIFA World Cup 2014 group A preliminary round match between Cameroon and Croatia on 18 June 2014.  EPA/MAST IRHAM
 Mynd: EPA
Umhverfisverndarsinnar óttast að úrskurður hæstaréttar í Brasilíu eigi eftir að hafa alvarleg áhrif á regnskóga Amazon. Segja þeir að með úrskurðinum sé í raun litið framhjá ólöglegu skógarhöggi. BBC greinir frá þessu.

Regnskógar Amazon eru stærstu regnskógar heims. Fjölskrúðugt dýra- og plöntulíf er að finna í skógunum og eru vísindamenn hvað eftir annað að uppgötva nýjar tegundir. Hingað til hefur bændum í skógunum verið gert að halda ákveðnu hlutfalli jarða sinna sem skóglendi. Sums staðar hefur svæðið þurft að vera 20% bújarðanna og allt upp í 80%. Lögin ná allt aftur til ársins 1965. Nú hefur hæstiréttur skorið úr um að það land sem verði að vera skógi vaxið verði minnkað um 290 þúsund ferkílómetra, sem er á við Ítalíu að stærð.

Samkvæmt lögunum áttu bændur að greiða bætur fyrir ólöglegt skógarhögg. Nú þurfa þeir ekki að greiða bætur fyrir skógarhögg fram að árinu 2008. Stórbændur verða þó að gróðursetja tré annars staðar á bújörð sinni fyrir þau tré sem þeir hjuggu.

Bændur og samtök þeirra segja úrskurðinn hjálpa til við að auka vöxt brasilíska hagkerfisins. Andstæðingar nýju laganna segja þau hins vegar opna möguleikann á auknu ólöglegu skógarhöggi án þess að hljóta bágt fyrir.
Eyðing regnskóganna í Amazon var minni í fyrra en árið áður. Um 6.600 ferkílómetrar skóglendis voru eyðilagðir í fyrra, en árið 2016 voru nærri 7.900 ferkílómetrar eyðilagðir. Það dugði þó ekki til þess að ná loftslagsmarkmiðum Brasilíu. 

Ólöglegur námugröftur er stórt vandamál í regnskógunum, og þá eru bændur stórtækir við að búa sér til svæði fyrir nautgripi sína.