
Skoðar mál vegar um Teigsskóg með þingmönnum
Aðalskipulagsbreytingar tefja málið
Reykhólahreppur vinnur að því að breyta aðalskipulagi sveitarfélagsins fyrir nýja veglínu um Gufudalssveit, oft kennda við Teigsskóg. Ljóst er aðalskipulagsbreytingar geta tekið hálft ár eða meira og Vegagerðin hyggst ekki sækja um framkvæmdaleyfi fyrir veglínunni fyrr en breytingum á aðalskipulagi er lokið.
Segir málið sorglegt
Endurbætur á Vestfjarðavegi 60 hafa lengi velkst um í kerfinu og gamall malarvegur er löngu kominn til ára sinna. Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála segir málið sorglegt. Það sjái þeir sem fari um þjóðvegi landsins: „Ástandið er líklega hvað verst þarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Algerlega óboðlegt og það verður ekki við það unað. Aukin atvinnuuppbygging og íbúafjölgun auðvitað krefst þess að samgöngur séu með sómasamlegum hætti.“
Kalla eftir lagasetningu
Jón segir vonbrigði að kerfið geti tafið svona framkvæmdir úr hófi og ekki ljóst hver næstu skref verði. Jón segir nokkra umræðu hafa verið meðal þingmanna um að koma fram með þingmál vegna vegagerðarinnar, til dæmis þingmenn kjördæmisins Teitur Björn Einarsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins og Elsa Lára Arnardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Framsóknarflokksins, sem hafa öll sent greinar þess efnis á bb.is.
„Ég skoða það með þeim og mér finnst margt vera sem geti stutt það að þetta sé þannig tilvik að það sé nokkuð einstakt og réttlæti slíka málsmeðferð,“ segir Jón.