Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skoðar að flýta vegaframkvæmdum með gjaldtöku

08.04.2018 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir koma til greina að flýta mikilvægum framkvæmdum til að tryggja umferðaröryggi. Mönnum hafi orðið það ljóst eftir veturinn að vegakerfið sé ónýtt og illa statt.

Sigurður Ingi var gestur Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Silfrinu í dag. Þar sagðist hann ekki vera að tapa slagnum við fjármálaráðuneytið um framlög til vegamála en sagði erfitt að gera allt í einu. Verið væri að byggja undir heilbrigðiskerfið, auka framlög til menntamála og taka á velferðarmálunum. „Það er hins vegar þannig í samgöngumálunum að mönnum er orðið það ljóst, sérstaklega eftir veturinn, að vegakerfið er bara ónýtt - það er mjög illa statt.“

Viðbótarfjármagnið sé meira en sést hafi á 20 ára tímabili. Aðeins á árunum 2008 og 2009 verið sett meira fé í vegaframkvæmdir en síðan þá hafi viðhald og framkvæmdir setið á hakanum. Á sama tíma hafi ferðamönnum meðal annars fjölgað um tvær milljónir. Þetta ásamt þessum vonda vetri hafi gert það að verkum að áskorunin sé eiginlega stærri. „Og við erum að skoða hvort við getum gert eitthvað í ár. Ég var að keyra í gær á Suðurlandinu á vegum sem eru mikið keyrðir af ferðamönnum og heimamönnum og þeir voru hreinlega bara ónýtir, bara gat og holur. Og þeir sem áttu að vera með bundið slitlag voru orðnir malarvegir.“

Sigurður Ingi segist leggja áherslu á umferðaröryggi og það hafi hann meðal annars gert í nýlegu bréfi sínu til formanns samgönguráðs. Það tengist meðal annars umferðarþunga en líka því að vegirnir séu ónýtir eða ekki búið að byggja þá upp eins og á Vestfjörðum. Þetta sé stórt verkefni og á árunum 2019, 2020 og 2021 sé áætlað að verja 70 til 75 milljörðum til uppbyggingar.

Það komi þó til greina og hafi verið skoðað á undanförnum vikum að fara í framkvæmdir sem væru ekkert ósvipaðar og Hvalfjarðargöngin með einhvers konar gjaldtöku. Með því væri hægt að taka á stórum verkefnum sem annars myndu bíða í fimm eða tíu ár. „Og flýta uppbyggingunni til að tryggja umferðaröryggi. Að fólk komist milli vinnu og heimilis á skilvirkan hátt án þess að vera í stórkostlegri hættu.“

Sigurður Ingi segist fyrst og fremst vera að horfa til meginleiða á höfuðborgarsvæðinu. Til mynda verði ekki ráðist í Sundabraut án gjaldtöku. Annað dæmi sé ný brú yfir Ölfusá sem hægt væri að ráðast í samhliða framkvæmdum við veginn milli Hveragerðis og Selfoss sem verði væntanlega í forgangi á næstu samgönguáætlun.