
Lakasta afhendingaröryggið á Vestfjörðum
Straumleysismínútur á Vestfjörðum hafa verið að meðaltali 164 á ári síðustu fimm ár, eða rúmlega tvær og hálf klukkustund. Snjallnetsvaraaflstöð í Bolungarvík frá 2015, sem er knúin olíu og ræsist sjálfkrafa, hefur fækkað straumleysismínútum mikið á norðanverðum Vestfjörðum en kemur ekki í veg fyrir fjölda truflana. Truflanir voru óvenjufáar á Vestfjörðum í fyrra eða 14 en hver truflun getur valdið óþægindum, skemmdum á ýmsum búnaði og afurðum og það getur tekið langan tíma að koma framleiðslu aftur í gang eftir straumleysi.
Þrjár leiðir til úrbóta
Í nýrri skýrslu sem Landsnet hefur látið vinna eru skoðaðar þrjár leiðir til úrbóta, snjallvaraaflstöð á sunnanverðum Vestfjörðum, hringtengingar innan Vestfjarða, lítil á sunnanverðum Vestfjörðum og stærri sem nær milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. Þá eru skoðuð áhrif mögulegra nýrra virkjana og tengipunkts í Ísafjarðardjúpi með tengingu þaðan í Kollafjörð í Gufudalssveit sem og úr Ísafjarðardjúpi á Ísafjörð. Hvalárvirkjun er notuð í útreikningum þótt ekki liggi fyrir tengisamningur virkjunarinnar við Landsnet.
Mismunandi lausnir fyrir hvern stað
Samkvæmt skýrslunni bæta hringtengingar og ný snjallnetsvaraaflsstöð við Tálknafjörð sérstaklega afhendingaröryggi á sunnanverðum Vestfjörðum en raforka frá nýjum tengipunkti gæti bætt raforkuöryggi á öllum Vestfjörðum. Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets segir að allir kostirnir hafi jákvæð áhrif á svæðið, en þetta séu sex afhendingarstaðir og útfærslurnar hafi mismikil áhrif á afhendingaröryggið á hverjum stað. Í skýrslunni er ekki horft til kostnaðar.
Ekki gert ráð fyrir framkvæmdum
Í kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2018-2027 er talað um tengingu Hvalárvirkjunar við kerfið og styrkingu á sunnanverðum Vestfjörðum sem verkefni í athugun og þær eru ekki í þriggja ára framkvæmdaáætlun.