Skoða þarf vandlega hvort seinka á klukkunni

10.01.2019 - 21:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Samtök atvinnulífsins hafa enn ekki tekið afstöðu til þriggja valkosta þess sem forsætisráðuneytið kynnti í dag um að seinka klukkunni hér á landi. Þegar hugmyndin kom upp fyrir nokkrum árum lögðust samtökin gegn því. Talsmaður þeirra segir að ýmislegt hafi breyst á síðustu árum og skoða þurfi hugmyndirnar gaumgæfilega áður en afstaða verði tekin.

Erna Sif Arnarsdóttir, doktor í lýðheilsufræðum, og Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins, ræddu í Kastljósi í kvöld kosti þess og galla að seinka klukkunni. Erna Sif var eindregið þeirrar skoðunar að allt mælti með því að seinka henni. Davíð sagði að í ljósi þess að tillögurnar væru nýkomnar fram hefði afstaða til þeirra ekki verið tekin, að mörgu væri að hyggja.

„Menn eru búnir að aðlaga sína alþjóðlegu starfsemi kringum þennan tíma, svo sem flugfélögin,“ sagði Davíð. Þau væru búin að tryggja sér afgreiðslutíma á flugvöllum erlendis, svo sem á Heathrow í Bretlandi og Kennedyflugvelli í Bandaríkjunum. Að breyta þeim tímum væri nánast ómögulegt eða að minnsta kosti mjög dýrt.

Davíð bætti því við að fara að breyta tíma sem hefði verið eins frá árinu 1968 kynni að valda mörgum vandræðum. Hann tók fram að ástæða þess að atvinnurekendur voru á sínum tíma hlynntir því að tekinn yrði upp sumartími á Íslandi hafi verið sú að þá færðist okkar tími nær Evróputíma.

„En ég held að það sé svolítið breyttur tími síðan þá. Á þessum tíma fóru viðskipti að miklu leyti fram í gegnum síma. Með sjálfvirknivæðingu og tölvupóstsamskiptum þurfa menn ekki lengur að vera nálægt hver öðrum í tíma til að geta átt viðskipti. Ég er ekki viss um að gömlu rökin eigi lengur við. En breytingin verður erfið. Við þurfum að fara yfir þetta með fyrirtækjunum og kanna hvað hún kostar svo að málið liggi ljóst fyrir,“ sagði Davíð Þorláksson.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi