Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skoða samstarf vegna brottkasts

18.01.2019 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Aukið samstarf um eftirlit með brottkasti verður væntanlega rætt á samráðsfundi Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar, segir framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. 

 

Ríkisendurskoðun birti í gær stjórnsýsluúttekt á eftirliti Fiskistofu. Þar kemur meðal annars fram að eftirlit Fiskistofu með vigtun, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda styðji ekki með viðunandi hætti við markmið laga um stjórn fiskveiða og umgengni nytjastofna sjávar. Alþingi óskaði eftir úttektinni eftir að Kveikur fjallaði um umfangsmikið brottkast í nóvember 2017.

Í skýrslunni segir að Fiskistofu sé ómögulegt að sinna öllu því eftirliti sem henni ber að sinna. Ríkisendurskoðandi telur að stjórnvöld verði að grípa til aðgerða svo Fiskistofa geti sinnt skyldu sinni. Í skýrslunni eru birtar tillögur til úrbóta, meðal annars að kannað verði hvort og þá hvernig hægt væri að auka samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar við eftirlit með brottkasti. 

„Við eigum eftir að skoða þessa skýrslu og þessar tillögur og meta hvernig Landhelgisgæslan getur brugðist við þeim og þá náttúrlega í samstarfi við Fiskistofu,“ segir Ásgrímur Ásgrímsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Hann segir að mikið og náið samstarf sé nú þegar milli Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu.

„Já, við erum í mjög góðu og nánu samstarfi við Fiskistofu um ýmislegt eftirlit og starfsmenn þeirra koma og sigla með varðskipunum og við förum með þá í eftirlitsferðir og við hittumst reglulega og eigum bara mjög gott samstarf.“

Ásgrímur á von á því að tillögur Ríkisendurskoðunar verði ræddar.

„Já, ég á von á því að það verði á samráðsfundum í  náinni framtíð,“ segir Ásgrímur Ásgrímsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.