Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skoða ráðningu erlendra hjúkrunarfræðinga

15.07.2015 - 19:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Meðal þeirra leiða sem stjórnvöld hafa til skoðunar, til að bregðast við ástandinu á Landspítalanum, er að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga til starfa. Þetta staðfesti Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í kvöldfréttum sjónvarps.

„Við höfum rætt saman, stjórnendur Landspítalans, ráðuneytið, landlæknir og fleiri og erum að skoða ýmsar leiðir til að mæta áhrifunum af þessu verkfalli,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, spurður hvort stjórnvöld eða stjórnendur landlæknis ætluðu að bregðast sérstaklega við atburðum dagsins. Í morgun kolfelldu hjúkrunarfræðingar nýgerðan kjarasamning og undirbúa nú málaferli á hendur ríkinu til að fá hnekkt lagasetningu á verkfall þeirra og því að gerðardómur ákveði laun þeirra. 

Hann staðfesti að stjórnvöld hefðu til skoðunar að vinna að því að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga til starfa. „Þetta er einn af þeim möguleikum sem við hljótum að skoða Í stöðunni eins og hún er verðum við að kanna alla möguleika. Ég vona hins vegar að til þess komi ekki, að á það þurfi að reyna.“

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV