Skoða lóð við Klepp fyrir lögreglu og Tollinn

06.04.2018 - 14:52
Lögreglustöðin við Hverfisgötu hefur verið lagfærð að utan.
 Mynd: RÚV - Þ
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að vinna að því að færa Tollstjóra, Ríkislögreglustjóra og Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu undir eitt þak. Áætluð húsnæðisþörf þessara þriggja stofnana er talin vera rúmir 20 þúsund fermetrar og gert er ráð fyrir því að skoða nánar hvort leigulóð ríkisins við Klepp geti hugsanlega komið til greina undir slíkt húsnæði.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, að um nokkurt skeið hafi verið til skoðunar að Ríkislögreglustjóri, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Tollstjóri sameinist um húsnæði á nýjum stað.

Margvísleg tækifæri séu til staðar til að auka samvinnu milli stofnana og ná fram meiri árangri í sameiginlegum verkefnum. Þá geti samnýting stofnana á sérhæfðum rýmum stuðlað „að meiri hagkvæmni í húsnæðisrekstri þeirra.“ Nýtt húsnæði myndi þannig fela í sér nútímalegt vinnuumhverfi með opnum rýmum og „möguleikum á þróun vinnubragða, t.d aukinni teymisvinnu.“

Framkvæmdasýsla ríkisins gerði frumathugun á sameiginlegu húsnæði ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í mars á síðasta ári. Niðurstaðan af þeirri athugun var að hentugast væri að auglýsa eftir húsnæði og kannað hvort leiguhúsnæði á almennum markaði hentaði starfsemi þessara tveggja stofnana. Ef ekkert kæmi út úr þeirri auglýsingu ætti að skoða viðbyggingu við lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Framkvæmdasýslan mat húsnæðisþörf ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á 12 þúsund fermetra en nýtt mat stofnunarinnar með Tollinum gerir ráð fyrir um 20 þúsund fermetrum.  „Miðað við rúmlega 20 þús. fermetra húsnæðisþörf er ljóst að byggja þyrfti nýtt húsnæði að öllu eða verulegu leyti undir sameiginlega starfsemi lögreglunnar og tolls. Mjög ólíklegt er að til staðar sé húsnæði á markaðnum sem uppfyllir allar þær sértæku kröfu sem gerðar eru til þessa húsnæðis.“

Það sé því til skoðunar að ríkið útvegi tiltekna lóð sem uppfylli nauðsynlegar kröfur og auglýst verði eftir tilboði í byggingu húsnæðis á þeim stað. Gert sé ráð fyrir að skoða nánar hvort leigulóð ríkisins við Klepp geti hugsanlega komið til greina undir slíkt húsnæði.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi