Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skoða hvort aðstæður í prófi voru viðunandi

07.03.2018 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nemendur sem ekki gátu lokið við samræmd próf í íslensku í morgun fá að taka prófið á næstunni. Hluti nemenda gat lokið við prófið en sums staðar við erfiðar aðstæður vegna tæknilegra vandamála á meðan þau voru að taka prófið. Þegar leið á morguninn var prófinu frestað um óákveðinn tíma.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir að það verði skoðað með skólunum hvort að þeir nemendur sem luku við prófin hafi verið undir óviðunandi álagi. „Þá munum við væntanlega gefa út annað sambærilegt próf sem þau geta þreytt í staðinn,“ segir hann. 

Ástæða tæknilegu vandamálanna í morgun var sú að netþjónn réði ekki við álagið. Hluti nemenda komst ekki inn í prófið. Aðrir nemendur komust inn í prófið en urðu fyrir truflunum vegna tæknilegra vandamála. Ekki er vitað hve margir nemendur gátu ekki lokið við prófið.

Á morgun taka 9. bekkingar samræmt próf í stærðfræði og á föstudaginn í ensku. Arnór segir að þjónustuaðili stofnunarinnar telji sig hafa fundið lausn á vandanum. „Í trausti þess, eftir að hafa fullvissað okkur um að allt sé í lagi með kerfið, verða prófin á morgun og á föstudag.“