Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skoða hugsanlegan krabbameinsvald

21.09.2012 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Vísindamenn telja að erfðabreyttur maís sem gerður hefur verið ónæmur fyrir ákveðnu plöntueitri sé krabbameinsvaldandi. Plöntueitrið er eitt mest selda plöntueitrið á Íslandi.

Plöntueitrið heitir Roundup og hefur um langt árabil verið selt í öllum stærstu blóma- og plöntusölum landsins. Samkvæmt upplýsingum frá Blómavali er þetta eitt mest selda plöntueitur landsins. Því er úðað á plöntur sem taka það upp í blöðunum og færa það niður í ræturnar þannig að plantan deyr. Efnið er notað út um allt og er mikið í nærumhverfi okkar, það drepur flest sem á vegi þess verður, ólíkt mörgu öðru eitri sem ekki drepur gras. Nýjar rannsóknir sem birtust í tímaritinu Food and Chemical Toxicology benda til þess að erfðabreyttur maís sem hefur verið gerður Roundup-þolinn sé mun meiri krabbameinsvaldur en maís sem ekki hefur komist í snertingu við Roundup.

Rottur sem neyttu maís sem hafði verið gerður Roundup-þolinn voru miklu líklegri til að þróa nýrna- og lifrarsjúkdóma, fá æxli í mjólkurkirtlana og dánartíðni þeirra var allt að þrisvar sinnum hærri en hjá öðrum rottum. Talið er að um þriðjungur þess maíss sem neytt er í heimum sé erfðabreyttur og hann er gríðarlega mikið notaður í matvælaframleiðslu. Ekkert eftirlit er með innflutningi á erfðabreyttu korni hér á landi.

Jónína Stefánsdóttir, matvælafræðingur hjá Matvælastofnun, sagði í Morgunútvarpinu að málið sé nú þegar til skoðunar hjá Matvæla- og öryggisstofnun Evrópu. „Hún hefur það hlutverk að fara yfir svona rannsóknir, vakta allt sem kemur nýtt fram, og meta áhættuna. Þannig að þetta er komið í þann farveg að hún er búin að setja á sína vefsíðu að hún viti af þessari rannsókn og að hún muni skoða hana eins og aðrar rannsóknir.“

Ekki náðist í talsmann Umhverfisstofnunar í morgun til að kanna hvort grípa ætti til einhverra ráðstafana gagnvart plöntueyðinum Roundup.