Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Skoða eignasölu til að fjármagna byggingu

29.09.2014 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Gert er ráð fyrir að tillögur um fjármögnun Landspítalans liggi fyrir fyrri hluta næsta árs. Stjórnvöld skoða nú hvort selja eigi eitthvað af eignum ríkissjóðs til að fjármagna spítalann.

Tæp tíu ár eru síðan ákveðið var að hefja undirbúning byggingar nýs Landspítala. Nýtt sjúkrahús var eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar árið 2005. 17. janúar það árið sagði Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra: „Við erum ákveðnir í því að fara í uppbyggingu á nýju sjúkrahúsi. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Jón Kristjánsson er búinn að vera að vinna að undirbúningi þess máls í mjög langan tíma og það liggja fyrir fullmótaðar tillögur um það.“

Ákveðið var að ágóðinn sem fengist við sölu Símans yrði eyrnamerktur nýju hátæknisjúkrahúsi, sem gladdi starfsfólk Landspítalans.

Jóhannes M Gunnarsson, þáverandi forstjóri Landspítalans, var kátur 10 janúar árið 2005. „Þetta er einhver bjartasti dagur sem ég hef upplifað hér á stofnuninni.“

Ekkert varð úr því að féð sem fékkst fyrir sölu Símans færi í nýjan spítala heldur var það notað til að mæta versnandi skuldastöðu ríkisisns eftir hrun. Heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra ræða nú um hvort hægt sé að selja eitthvað af eigum ríkisins til að fjármagna sjúkrahúsbyggingu. „Það eru í mínum huga allar eignir sem eru undir. Auðvitað hef ég mínar persónulegu skoðanir á því hvað ekki megi selja eða breyta um,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Hann segir að ekki sé tímabært að tala um hvaða eignir eigi að selja eða alls ekki að selja fyrr en búið sé að svara því hvort menn séu tilbúnir til að fara þessa leið. Eignir ríkissjóðs í lóðum, löndum, húseignum og fyirtækjum eru metnar gróflega á 1000 milljarða króna.

„Og það sem ég er að hvetja til er að stjórnmálaöflin í þessu landi horfi á þetta eignasafn og skoði það hvort við getum ekki af þessum 1000 milljörðum fundið einhverstaðar 60 - 80 milljarða, þó ekki væri meira, og byrja að standa straum af þeim framkvæmdakostnaði sem óhjákvæmilegur er varðandi þjóðarsjúkrahúsið,“ segir Kristján Þór. „Ég geri ráð fyrir því að tillögur varðandi fjármögnunarþáttinn liggi fyrir á fyrrihluta næsta árs.“