Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skoða að leyfa áfengisauglýsingar

03.04.2018 - 22:13
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og málaráðherra telur að huga þurfi að lýðheilsu, þegar tekin er ákvörðun um hvort leyfa eigi áfengis- og tóbaksauglýsingar í íslenskum fjölmiðlum. Tillaga þess efnis er nú til skoðunar í menntamálaráðuneytinu 

Meirihluti nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hefur lagt til að heimila áfengis- og tóbaksauglýsingar hér á land. Skýrslan var birt í lok janúar. Þar segir að bannið þjóni vart tilgangi sínum lengur þar sem auglýsingar berist Íslendingum í erlendum miðlum hvort sem er útvarpi, sjónvarpi, vef, samfélagsmiðlum, blöðum eða tímaritum. Það er mat meirihluta nefndarinnar að íslenskir fjölmiðlar eigi að lúta sambærilegum reglum og þeir erlendu. Segir nefndin að um mikla tekjumöguleika sé að ræða fyrir íslenska fjölmiðla.

Lilja segir að tillagan sé ein af mögum sem verið sé að skoða í ráðuneytinu hvernig getur komið út. „Þ.e.a.s áhrifin og kostnaðaráhrifin og áhrifin á viðkomandi fjölmiðla. Mér finnst auðvitað mestu máli skipta er varðandi þessar auglýsingar að þegar við tökum ákvörðun að við höfum lýðheilsuleg sjónarmið að leiðarljósi.“

Bent hefur verið á að áfengisauglýsingar hafa verið birtar hér á landi duldar og óduldar þrátt fyrir bannið. 

„Við verðum auðvitað vör við þetta og við lifum í gjörbreyttum heimi er varðar samfélagsmiðlana. Nú erum við að skoða þetta allt. En við megum hins vegar ekki gleyma því að við höfum hér á Íslandi náð umtalsverðum árangri sem er viðurkenndur varðandi lýðheilsumál [..] og mér finnst auðvitað mjög brýnt að við höldum í þann árangur.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV