Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skjánotkun einangrar og veldur kvíða

Skólastjóra í Gautaborg þótti farsímanotkun nemendanna vera farin að keyra um þverbak. - Mynd: CC0 / Pixabay
Of mikil skjánotkun unglinga er alvarlegt vandamál að mati Sössu Eyþórsdóttur, iðjuþjálfa í Hagaskóla. Hún segir kvíða, einangrun og þunglyndi vegna samfélagsmiðla og tölvuleikja vera að aukast greinilega.

„Í matartíma horfir þú yfir löng borð og flestir eru búnir að grúfa sig yfir símann. Þau eru kannski að sína hvert öðru eitthvað, en það er ekki þetta flæði í samskiptum sem ég sakna gríðarlega, og ég veit að þau gera það líka. Við höfum prófað að vera með tæknilausa daga og lífið og fjörið sem kviknaði það var sláandi,“ segir Sassa Eyþórsdóttir í viðtali við Morgunvaktina en hún hefur starfað með unglingum í einum stærsta gagnfræðaskóla landsins, Hagaskóla í Reykjavík, undanfarin átta ár.

Mynstrið hefur breyst

Í síðustu viku ræddi Morgunvaktin við Hermund Sigmundsson, prófessor í Þrándheimi, um tengsl aukinnar skjánotkunnar við líðan barna og unglinga. Hermundur, sem nýlega birti niðurstöður rannsóknar á líðan norskra barna og unglinga, segir unglinga upplifa stress og álag í auknum mæli vegna skjánotkunar og afleiðingarnar komi fram í líkamlegum verkjum og kvíða. Sassa segir niðurstöður Hermundar ekki koma sér á óvart. „Ég er búin að vinna á geðheilbrigðissviði núna í 20 ár, fyrst á barna og -unglingadeild Landsspítala og svo núna í Hagaskóla, og mér finnst mynstrið hafa breyst. Krakkar sem eru að leita til mín núna eru krakkar sem eru að takast á við kvíða eða þunglyndi af einhverju tagi. Það er gríðarleg aukning,“ segir Sassa sem tengir álagið að mörgu leiti við samfélagsmiðla.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Sassa Eyþórsdóttir, iðjuþjálfi í Hagaskóla, hefur starfað við geðheilbrigðismál unglinga í tuttugu ár.

Sassa segir að fyrirtækið Rannsóknir og greining hafi tekið stöðuna á krökkum um allt landið og þær tölur tali sínu máli. „Það greinilega að kvíði er að aukast og þar kemur greinileg tenging á milli samfélagsmiðla og kvíða. Og maður sér það sjálfur að þetta kemur oft upp í samtölum við krakkana. Þau eru að fylgjast með því hvað hinir eru að gera, og allir eru að gera eitthvað annað og æðislegt, og allir eiga svo skemmtilegt og spennandi líf, og ég er að fá þessi læk og þessa svörun úr umhverfinu, þetta eru skilaboð sem þeim finnst mikilvæg. Það er kannski erfitt fyrir okkur að skilja mikilvægi þessa þáttar í lífi þeirra, en svarið frá umhverfinu kemur frekar fram á samfélagsmiðlunum heldur en í dagsdaglegu tali á göngunum. Þarna er þeirra heimur og sjálfsmyndin skapast dáldið út frá því sem er að gerast þar.“

Það er mikilvægt að vera með stóran hóp í kringum sig á samfélagsmiðlum því annars fá krakkarnir ekki þau viðbrögð sem leitað er eftir. „Það eru til dæmi um það, og sérstaklega hjá stúlkum, að þær treysta sér ekki til að mæta í skólann eftir að hafa sent mynd af sér í fallegum kjól eftir árshátíðin og fengið bara fimm læk, en vinkonan fengið kannski þrjátíu og sjö,“ segir Sassa en rannsóknir benda einmitt til þess að stúlkur upplifi frekar kvíða vegna samfélagsmiðla en drengir. „Við sjáum þetta vera að aukast hjá strákunum en þar sjáum við  líka þætti tengda notkun á tölvuleikjum og samskipti sem eiga sér stað þar. Þar er annar heimur sem oft veldur mikilli einangrun. Ég sé mikinn einmanaleika hjá strákunum, að þeir upplifi sig eina í heiminum. Þeir hittast meira í tölvuheimi en raunheimi en langar að fara út á völl og spila bolta og geta haft það gaman,“ segir Sassa og bætir því við að allt samskiptaflæði hafi breyst. „Við þurfum til dæmis ekki lengur að hafa öfluga gangaverði. Það sitja allir stilltir og kyrrir og eru uppteknir í símunum sínum. Í matsalnum grúfa sig allir yfir símana, það er ekki verið að horfast í augu og snertast. Þetta flæði í að tala saman og lesa í líkamstjáningu og allt sem við þurfum að kunna til að vera fær í mannlegum samskiptum, þau eru að fara dáldið á mis við það.“  

Rætt var við Sössu Eyþórsdóttur um unglinga og skjánotkun á Morgunvaktinni og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

hallah's picture
Halla Harðardóttir