Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Skjálftinn á enda stórs misgengis

30.08.2012 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Jarðskjálftinn sem reið yfir við Bláfjöll eina mínútu í tólf varð í norðurenda stórs misgengis vestur af Geitafelli. Það var korlagt fyrir nokkrum árum og er einn þeirra staða sem hafa verið nefndir sem hugsanlegur upphafsstaður stórs jarðskjálfta í framtíðinni.

Þetta segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Hann segir ekki hægt að segja til um hvað gerist næst. Skjálfti eins og sá sem reið yfir í dag getur hvort tveggja verið stærsti skjálftinn í jarðskjálftahrinu eða fyrirboði annars stærri jarðskjálfta. Skjálftinn losar um spennu þar sem hann varð en við svona jarðhræringar getur spenna aukist á nærliggjandi stöðum.

Jarðskjálftinn var 4,6 og voru upptök hans á 64,00107° norðlægrar breiddar og  21,59168 gráðu vestlægrar breiddar. Hann var á 5,8 kílómetra dýpi. Margir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, enginn stærri en 2,0. Skjálftinn segir ekkert til um eldsumbrot, segir Páll, enda lítil tengsl milli jarðskjállfta og eldgosa.

Skjálftinn fannst víða á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar á Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum hafa einnig haft samband við fréttastofu og greint frá því að þeir hafi fundið fyrir honum.