Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skjálfti upp á 7,2 skók Papúa Nýju Gíneu

07.05.2019 - 02:58
Mynd með færslu
 Mynd: USGS
Jarðskjálfti af stærðinni 7.2 skók eyríkið Papúa Nýju-Gíneu í morgunsárið á þriðjudag, eða lasut fyrir hálftíu að kvöldi mánudags að íslenskum tíma. Upptök skjálftans voru á 127 kílómetra dýpi, eina 250 kílómetra frá höfuðborginni Port Moresby, þar sem fólk fann vel fyrir honum. Um 110.000 manns búa innan fimmtíu kílómetra frá miðju skjálftans en engar fregnir hafa borist af manntjóni eða slysum á fólki, né heldur af alvarlegu tjóni á mannvirkjum.

Rafmagn fór þó af á nokkrum stöðum, lausamunir hrundu úr hillum og fólk hrökk víða upp af værum svefni, en meiri usla virðist þessi öflugi skjálfti ekki hafa gert. Þar sem upptök hans voru á þetta miklu dýpi var heldur engin hætta á flóðbylgju, og því engin viðvörun um slíkt gefin út, samkvæmt upplýsingum almannavarna í landinu.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV