Skjálfti upp á 3,1 við Grindavík

28.01.2020 - 00:42
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Jarðskjálfti. 3,1 að stærð, varð skammt norður af Grindavík um kvöldmatarleytið. Töluverð skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga að undanförnu og og landris óvenjumikið undir og umhverfis móbergsfellið Þorbjörn, sem er á milli Grindavíkur og Svartsengis.

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að jörð hafi lítið skolfið í dag, fram að skjálftanum sem varð laust fyrir klukkan nítján í kvöld. Nokkrir litlir eftirskjálftar fylgdu honum, allir undir tveimur að stærð, sá síðasti klukkan 22.02.

Um þrjúleytið í dag var landris undir Þorbirni orðið rétt tæplega 3 sentimetrar og var rishraði samur og áður, tveir til fjórir millimetrar á sólarhring, að sögn Bjarka. Grannt er fylgst með þróun mála á gosbeltinu á Reykjanesskaga þessi dægrin vegna líklegrar kvikusöfnunar á nokkurra kílómetra dýpi vestur af Þorbirni, og búið er að koma fyrir fleiri og nákvæmari mælitækjum sem jarðvísindamenn fylgjast með í rauntíma.

Af öllum þeim mögulegu atburðarásum sem jarðvísindamenn sjá fyrir sér í framhaldi af virkni síðustu daga og vikna er eldgos sú ólíklegasta. Engu að síður hefur óvissustig almannavarna verið vrkjað, til að gæta ítrasta öryggis. Grindvíkingum var í dag kynnt rýmingaráætlun sem búið er að gera fyrir bæinn vegna mögulegs eldgoss, og miðar hún að því að búið verði að rýma bæinn áður en gosið hefst. Gangi það ekki eftir verður gripið til neyðarrýmingar. Þá er í gildi gulur litakóði fyrir flug yfir Reykjanesskaga.