Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skjálfti í Mýrdalsjökli en enginn gosórói

07.09.2016 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skjálfti af stærðinni 3,5 varð í Mýrdalsjökli rétt fyrir klukkan átta í morgun, norðaustur af Hábungu. Bryndís Ýr Gísladóttir, Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir engan gosóróa vera á svæðinu. Yfir sumartímann komi stöku skjálftar yfir 3 að stærð.

Veðurstofan fylgist náið með framvindu mála í Mýrdalsjökli og eldstöðinni Kötlu en í lok ágúst varð skjálftahrina við jökulinn þar sem á annan tug skjálfta mældust á nokkrum klukkustundum. Þá sagði Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár á Veðurstofunni, að ekki væri spurning um hvort Katla gjósi, heldur hvenær. Ekki hafi liðið eins langur tími á milli gosa í eldstöðinni frá því land byggðist.