Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skjálftar mældust við Kárahnjúkavirkjun

26.08.2014 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Tveir jarðskjálftar urðu við Sauðárdalsstíflu Kárahnjúkavirkjunar í gærkveldi sem eru þeir fyrstu sem mælast þar eftir að virkjunin var tekin í notkun.

Skjálftarnir urðu í Sauðárdalsmisgengi. Fyrri skjálftinn varð 13,5 km suð suð vestur af Sauðárdalsstíflu rétt fyrir hálf tíu, sá síðari um 12 mínútum síðar  5,6 km suð austur af stíflunni.  Óli Grétar Blöndal Sveinsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkunajr segir að stíflurnar séu hannaðar til að þola miklu sterkari skjálfta. Við hönnun stíflunnar hafi verið gert ráð fyrir því að hún þyldi skjálfti af stærðinni 5,5 til 6 sem ætti sér upptök í grennd við stífluna en  4 - 5 ef þeir yrðu á sjálfu stíflusvæðinu. Skjálftarnir sem urðu nú séu langt undir þeim mörkum. Mesta færsla sem orðið hafi á sauðárdalsmisgenginu sé í 5 km fjarlægð frá stíflusvæðinu. Ekki hafi tekist að greina að misgengið nái undir stíflusvæðið sjálft.  

„Þetta eru fyrstu skjálftarnir sem mælast eftir að mannvirkin eru komin í notkun þarna á þessu svæði á þessu misgengi.  Það sem gert er þegar þessar framkvæmdir fara í gang þá er bætt við mælakerfi á þessu svæði til þess að hægt sé að nema smáa skjálfta en ef svona skjálftar, svona stórir hefðu verið á síðustu á síðustu 20 árum þá hefði núverandi mælikerfi átt að meta þá skjálfta líka, þannig að það hafa ekki orðið svona skjálftar á þessu svæði áður síðan mælakerfið var sett upp."

Ef gos kæmi úr Bárðarbungu sjálfri er hugsanlegt að hluti flóðvatns fari yfir í Köldukvísl og niður í Hágöngulón sem er á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Ekki sé talin hætta á því að flóð verði við Hálslón Kárahnjúkavirkjunar.  Kárahnjúkastífla á að þola skjálfta sex að stærð. Hún er stærst af stíflunum þremur og ef eitthvað gerist á svæðinu er miðað við að hinar stíflunar, Sauðárdalsstífla og Desjarárstífla fari á undan.  Gert er ráð fyrir því við hönnun þessara þriggja stíflna að ef kemur stórt flóð þá rofnar fyrst Desjarárstífla.  Lítll kafli hennar er hannaður þannig að hann gefi sig fyrst.