Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skjálftahrinan við Grímsey líklega í rénun

20.02.2018 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Enn skelfur jörð við Grímsey þó að aðeins einn skjálfti yfir þrjá hafi mælst síðan í gær. Síðan stóri skjálftinn reið yfir í gær hafa skjálftarnir minnkað, en eru þó tíðir. Jarðvísindamaður segir margt benda til að hrinan sé í rénun.

Um klukkan hálf sex í gærmorgun mældust tveir stórir skjálftar, 4,9 og 5,2 að stærð, austan við Grímsey. Skjálftarnir fundust greinilega á mestöllu Norðausturlandi og var óvissustig almannavarna virkjað í kjölfarið. Nú virðist sem skjálftahrinan, sem hefur staðið síðan í lok janúar, sé í rénun. Að minnsta kosti hefur aðeins einn skjálfti yfir 3 að stærð mælst síðan á miðnætti, en alls hafa yfir 100 skjálftar mælst á svæðinu, flestir á bilinu 1 til 2 að stærð. Í gær mældust um 60 skjálftar yfir 3 að stærð á Tjörnesbrotabeltinu. 

Ólíklegt að annar stór skjálfti komi

Hildur María Friðriksdóttir, jarðvísindamaður hjá Veðurstofu Íslands, segir að þó skjálftarnir séu ekki eins sterkir og í gær, séu þeir enn mjög tíðir. 

„Við erum að fá skjálfta hérna á næstum því hverri mínútu, en þeir eru ekki jafn stórir. Við höfum fengið hérna þennan eina þrist í nótt, og allir hinir hafa verið minni,” segir Hildur.  

Margt bendi til þess að skjálftahrinan, sem hefur nú staðið í þrjár vikur, sé í rénun. „Það eru mestar líkur á því. En við getum ekki útilokað neitt. Það er alltaf möguleiki á að það geti komið svona í mesta lagi önnur fimma, annar stór skjálfti, þannig að fólk verður að vera undirbúið fyrir það. En mér þykir það mjög ólíklegt.”