Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skjádómgæsla innleidd í ensku úrvalsdeildina

epa06195849 Referee Claudio Gavillucci looks at a replay of the video assistant referee (VAR) technology during the Italian Serie A soccer match between FC Internazionale and SPAL in Milan, Italy, 10 September 2017.  EPA-EFE/MATTEO BAZZI
 Mynd: EPA

Skjádómgæsla innleidd í ensku úrvalsdeildina

15.11.2018 - 14:45
Ákveðið var í dag á fundi forráðamanna félaganna sem leika í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta að innleiða skjádómgæslu (e. VAR, video assistant refereeing) í deildina frá og með næstu leiktíð. Hinn hefðbundni dómari verður þó áfram með völdin og nýtur liðsinnis tveggja aðstoðardómara. En skjádómgæslan bætist svo við sem aukamöguleiki þegar grunur leikur á rangstöðu þegar mörk eru skoruð, eða þegar vafaatriði eiga sér stað þegar kemur að brotum og spjöldum.

Skjádómgæslan þótti heppnast með miklum ágætum á heimsmeistaramóti karla í fótbolta í Rússlandi í sumar, en var talsvert gagnrýnd eftir Álfukeppni FIFA sumarið 2017, þar sem þá þóttu allar ákvarðanir í gegnum VAR kerfið taka of langan tíma og kerfið ekki nógu skilvirkt.

Fyrir utan stórmót á vegum FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins hefur VAR þegar verið innleitt í Bundesliguna í Þýskalandi, Seríu A á Ítalíu, bandarísku MLS-deildina og áströlsku A-deildina. Þá hefur UEFA, Evrópska knattspyrnusambandið líka ákveðið að skjádómgæslan verði innleidd í Meistaradeild Evrópu frá og með næstu leiktíð.