Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skírlífi í ár skilyrði fyrir blóðgjöf homma

21.02.2019 - 07:44
Mynd:  / 
Ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu vill að reglur um blóðgjafir homma verði rýmkaðar og leggur til að samkynhneigðum mönnum verði leyft að gefa blóð 12 mánuðum eftir samræði við annan mann. Nefndin vill fara varlega í sakirnar þar sem rétturinn til að fá öruggt blóð sé alltaf ríkari en rétturinn til þess að mega gefa blóð.

Þetta kemur fram í áliti nefndarinnar sem skilað var til heilbrigðisráðuneytisins í lok janúar.

Ítrekað hefur verið deilt á að samkynhneigðir karlmenn fái ekki að gefa blóð og talsverð umræða varð um þetta mál eftir síðasta áramótaskaup. Þar var atriði með nokkrum þekktum hommum sem spurðu: „Eru hommar kannski menn?“  Hér á landi hafa hommar ekki mátt gefa blóð en í  Danmörku mega þeir gefa blóð ef þeir hafa ekki stundað kynlíf með öðrum körlum í fjóra mánuði en nýjar reglur tóku gildi þar um áramótin. 

Ráðgjafanefndin segir að ekki hafi komið fram blóðbornar sýkingar sem megi tengja við þennan hóp sérstaklega. Hæfilegt fyrsta skref sé að leyfa blóðgjöf homma tólf mánuðum eftir samræði við annan mann.  Nefndin telur að nauðsynlegur tími þar til þessum reglum verði breytt vera 1 til 2 ár enda þurfi margvíslegur undirbúningur að fara fram. 

Nefndin telur að samhliða þessu þurfi að fara yfir aðrar reglur sem gilda um blóðgjafir, eins og til að mynda fólks með húðflúr og þeirra sem hafa ferðast á malaríusvæði.  Samræmi þurfi að vera í reglum með tilliti til ýmissa áhættuþátta.

Þá þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana til að tryggja megi áfram gæði þeirra blóðhluta sem Blóðbankinn framleiðir eða svokallaðar kjarnsýruprófanir á öllum blóðhlutum. „Slík ráðstöfun styrkir blóðbankaþjónustuna og eykur öryggi blóðþega,“ segir í áliti nefndarinnar en í allflestum löndum þar sem hommar mega gefa blóð er slík kjarnsýruprófun hluti af öryggiskerfi blóðbanka.  Nefndin segir jafnframt mikilvægt að fram fari kynning í samfélaginu og umræða um fyrirhugaðar breytingar.