Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Skiptir krakkana miklu máli“

21.03.2016 - 09:33
Fyrsta barnamenningarhátíð Vestfjarða lauk um helgina en hún fór fram á Ströndum. Nemandi í 9. bekk segir hátíðina skipta miklu máli: „Barnamenningarhátíð er þar sem við komum öll saman og höfum skemmtilegt, þar sem við hlæjum saman, tölum saman og verðum öll nánari hvert öðru, segir Daníel Freyr Newton, nemandi í Grunnskólanum á Hólmavík.

„Við erum búin að vera í DJ-smiðju og sirkussmiðju og galdrasmiðju og gera kynningar og fara á námskeið.“ Daníel segir að það sé ýmislegt til að læra á barnarmenningarhátíðinni sem hann hefði líklega annars ekki lært: „Eins það og að DJ-a tekur miklu meiri vinnu en ég hélt. Og karnival dýranna er skemmtilegra en ég átti von á.“

Krakkar í þriðja og fjórða bekk í Grunnskólanum á Hólmavík hafa undanfarnar vikur útbúið alls konar dýr í listatímum fyrir Karnival dýranna. „Ég bara teiknaði svan á blað og klippti hann út og teiknaði svo annan svan og límdi þá saman svo þeir yrðu aðeins þykkari,“ segir Jóhanna Rannveig Jensdóttir, nemandi í 4. bekk. Emma Ýr Kristjönudóttir sem er einnig í 4. bekk bjó einnig til dýr og bókstaf fyrir sýninguna: „Ég gerði þetta með því að gera einn fisk og svo gerði ég einn sporð og tengdi með vír.  Og haninn, þá gerði ég fjaðrir og litaði hann bara.“

Nemendur Grunnskóla Drangsness voru við æfingar á leikritinu Horn á höfði þegar fréttastofa leit við.

Daníel segir hátíðina skipa miklu mjög miklu máli fyrir krakkana: „Þetta skiptir krakkana mjög miklu máli því þeim finnst mjög gaman að koma svona saman og tala og hafa gaman.“

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður