Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skiptingu ráðuneyta gæti lokið í dag

Mynd með færslu
 Mynd:
Endanleg mynd er að komast á stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins við myndun nýrrar ríkistjórnar. Formenn flokkanna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson hittast í dag til að ræða skiptingu ráðuneyta milli flokkana.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er stefnt að því að ljúka því verkefni í dag eða á morgun. Ljóst þykir að Sigmundur Davíð taki við forsætisráðuneytinu, en Bjarni verði fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta hefur þó ekki fengist endanlega staðfest.

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins og miðstjórn Framsóknarflokksins koma saman eftir helgi, til að staðfesta stjórnarsamstarfið. Rætt hefur verið um að breyta skipulagi ráðuneyta í nýrri ríkisstjórn, og til stendur að skipa sérstakan heilbrigðisráðherra.

Svipaðar hugmyndir hafa verið ræddar hvað varðar innanríkisráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið; ekki er þó ljóst hversu langt þær hugmyndir ganga.