Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skiptar skoðanir um tillögur nafnanefndar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúar í Sandgerði og Garði eru ekki á eitt sáttir um fimm tillögur að nafni nýs sameinaðs sveitarfélags. Rafræn kosning stendur yfir um tillögur nafnanefndar sveitarfélaganna.

Íbúar samþykktu í nóvember að Garður og Sandgerði yrðu sameinuð. Óskað var eftir tillögum frá íbúum að nafni á sveitarfélagið og bárust hátt í fjögur hundruð. Fimmtán nöfn voru send til Örnefnanefndar sem veitti sína umsögn. Örnefnanefnd lagðist gegn átta tillögum. Nafnanefnd sveitarfélaganna ákvað að kosið skyldi á milli nafnanna Ystabyggð, Suðurbyggð, Nesjabyggð, Heiðarbyggð og Útnesjabyggð.

Örnefnanefnd mælir með nafninu Útnesjabyggð en leggst ekki gegn hinum fjórum. Í umsögn Örnefnanefndar segir að nafið Útnesjabyggð vísi til Útskála, Hvalsness og Miðness. Þá hafi íbúar á árum áður verið kallaðir Útnesjamenn.

Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Sandgerði, segir það ekki hafa farið fram hjá honum að íbúar séu ekki allir á eitt sáttir um tillögurnar sem hægt er að kjósa um. „Sú skoðun kemur mjög sterklega fram að fólki finnst kostir sem það hefði viljað hafa inni hafi verið teknir út. Hér er ég að vísa í að Örnefnanefnd gaf neikvæða umsögn um kosti sem heimamenn hefðu viljað sjá þarna inni, margir hverjir. Þannig að já, það eru alla vega ekki allir á eitt sáttir,“ segir hann.

Niðurstaða kosningarinnar er ekki bindandi. Ný bæjarstjórn, sem tekur við völdum að loknum sveitarstjórnarkosningum í vor, tekur á endanum ákvörðun um það hvort farið verði eftir henni. „Það mál er í höndum nýrrar bæjarstjórnar hvernig það verður gert. Það má heldur ekki gleyma því að það er vel hugsanlegt að hér komi bara sterk og góð niðurstaða og góð þátttaka í kosningum og það verði niðurstaða sem við getum sæst við. Það eru ágætis tillögur þarna sem verið er að kjósa um.“

Fyrri umferð rafrænnar kosningar stendur nú yfir. Niðurstöður hennar verða tilkynntar næsta föstudag, 11. maí. Þá hefst önnur kosning þar sem íbúar velja á milli þeirra tveggja nafna sem hlutu flest atkvæði í fyrri kosningunni.

Fréttin var uppfærð klukkan 13:14: Áður sagði í fyrirsögn og í fréttinni að tillögur að þessum fimm nöfnum kæmu frá Örnefnanefnd. Hið rétta er að tillögurnar koma frá nafnanefnd sveitarfélaganna Sandgerðis og Garðs. Örnefnanefnd gaf sína umsögn en nafnanefnd sveitarfélaganna valdi á milli hvaða fimm nafna yrði kosið.