Skiptar skoðanir um tillögur Junckers

09.09.2015 - 17:48
epa04922312 Refugees from Syria arrive on a dinghy after crossing from Turkey at the coast of Mytilini, Lesvos island, Greece, 09 September2015. Some 3,000 refugees disembark daily at the coasts of the island, coming from the Turkish coastline. Most of
Daglega koma þúsundir sýrlenskra flóttamanna til Grikklands. Mynd: EPA - ANA-MPA
Ekki er eining um tillögur um flóttamannakvóta, sem Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kynnti í dag. Nokkur ríki hafa lýst yfir andstöðu við tillögurnar.

 

Tillögur Junckers gera ráð fyrir að Evrópusambandsríki taki við 160.000 flóttamönnum og að mótuð verði áætlun til lengri tíma um viðbrögð við flóttamannavandanum. Samkvæmt tillögunum verða Evrópuríki skuldbundin til að taka við tilteknum fjölda flóttamanna og vilja Svíar og fleiri að tekið verði mið af stærð, íbúafjölda og efnahagsástandi í löndum ESB.

Ráðamenn í Póllandi, Tékklandi, Slóvakíu og Ungverjalandi hafa gagnrýnt tillögur Junckers og vilja að löndin fái að ákveða sjálf hvaða flóttamönnum þau taki við og hversu mörgum, en ekki að það sé ákveðið í Brussel. Þannig sagði Bohuslav Sobotka, forsætisráðherra Tékklands, að bindandi kvóti væri ekki rétta lausnin. Innanríkisráðherrar ESB-ríkja koma saman eftir helgi til að ræða tillögur Junckers.

Bandaríkjamenn hafa sætt gagnrýni fyrir að taka við fáum flóttamönnum frá Sýrlandi í ljósi atburða í Evrópu að undanförnu, en John Kerry utanríkisráðherra sagði í dag að til skoðunar væri að taka við fleirum.

Bandaríkjamenn taka árlega við um 70.000 flóttamönnum víðsvegar að, en hafa verið tregir að taka við flóttamönnum frá Sýrlandi. Einungis 1.500 sýrlenskir flóttamenn hafa fengið hæli í Bandaríkjunum síðan stríðið hófst í Sýrlandi árið 2011.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi