Skiptar skoðanir um ný bókmenntaverðlaun

Mynd: EPA / EPA

Skiptar skoðanir um ný bókmenntaverðlaun

30.04.2019 - 14:02

Höfundar

Í síðustu viku var tilkynnt að breski rithöfundurinn Ian McEwan hlyti ný alþjóðleg bókmenntaverðlaun kennd við Halldór Laxness. Nokkur umræða hefur skapast um valið og sitt sýnist hverjum. Kristján B. Jónasson bókaútgefandi segir að það gefi til kynna að erindi verðlaunanna hafi ekki verið hugsað til hlítar.

Ian McEwan, sem hlaut fyrstur manna ný alþjóðleg bókmenntaverðlaun kennd við Halldór Laxness á dögunum, á að baki langan og glæsilegan feril sem rithöfundur. Það efast fæstir um gæði verka hans en það hefur hins vegar verið nokkuð rætt um hvert erindi verðlaunanna sé og hvort rétt stefna hafi verið tekin við afhendingu þeirra til rithöfundar sem er þegar margverðlaunaður, virtur og frægur.

Verðlaunin nema 15.000 evrum, sem samsvarar hér um bil tveimur milljónum íslenskra króna, og eiga samkvæmt tilskipun að vera veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi sem stuðlað hefur að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum. Þar er vísað í umsögn Sænsku akademíunnar um verk Halldórs Laxness þegar hann hlaut Nóbelsverðlaunin 1955.

Forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðherra, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Forlagið, sem er útgefandi verka Halldórs Laxness, og Gljúfrasteinn standa að verðlaununum og stendur íslenska ríkið straum af verðlaunafénu. Í valnefnd verðlaunanna að þessu sinni voru Eliza Reid forsetafrú, Einar Már Guðmundsson rithöfundur og Stella Soffía Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík.

epa06806050 (FILE) - British writer Ian McEwan poses for the media during an interview in Barcelona, Catalonia, Spain, 10 March 2017 (reissued 14 June 2018). Ian McEwan turns 70 on 21 June 2018.  EPA-EFE/QUIQUE GARCIA
 Mynd: EPA
Ian McEwan er væntanlegur til landsins í haust til að veita verðlaununum móttöku.

Rætt var við Fríðu Björk Ingvarsdóttur rektor Listaháskóla Íslands og Kristján B. Jónasson bókaútgefanda um verðlaunin í Lestinni á Rás 1. Þau deila ekki um það hversu góður rithöfundur McEwan er en þau eru sammála um að hægt hefði verið að vanda betur til verka.

Ferill McEwans spannar nær hálfa öld. Hann er fæddur árið 1948 og fyrsta bók hans, sagnasafnið First love, Last Rites, kom út árið 1975. Fyrsta skáldsaga hans, The Cement Garden, eða Steinsteypugarðurinn, eins og hún nefnist í íslenskri þýðingu Einars Más Guðmundssonar, kom út árið 1978. McEwan er margverðlaunaður, vann til dæmis Whitbread verðlaunin fyrir skáldsöguna The Child in Time árið 1987, og Man Booker verðlaunin árið 1998 fyrir skáldsöguna Amsterdam, og hann hefur verið orðaður við Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Fríða Björk þekkir vel til verka McEwans og velkist ekki í vafa um að hann sé rithöfundur með vigt, hann hafi unnið þrekvirki með verkum sínum og átt stóran þátt í formbyltingu breskra bókmennta. „Hann er með puttann á púlsinum. Hann veit um hvað framtíðin snýst og hann hefur verið ótrúlega góður í að gera þessu öllu skil í frekar viðamiklum og áhrifamiklum skáldsögum sem ná til almennings.“ Að því leyti uppfyllir Ian McEwan skilyrði verðlaunanna um að stuðla að endurnýjun sagnalistarinnar líkt og Halldór Laxness forðum.

Kristján B. Jónasson bendir hins vegar á að Halldór hafi ekki endilega verið verðlaunaður fyrir endurnýjun sagnalistar á alþjóðavísu, heldur hafi nefndin einkum horft til Íslendingasagnanna. Halldór var höfundur lítils málsvæðis og hans ferill var eilífur barningur við það að ná eyrum annarra en þeirra sem kunna íslensku segir Kristján. „Ég hefði fyrir mína parta viljað að menn hefðu lagt það niður fyrir sér: Hvað stendur Halldór Laxness fyrir? Hvað stóð ferill hans fyrir og hvað stóð ferill hans fyrir einkum og sér í lagi í tengingu við hinn alþjóðlega bókmenntaheim? Að mínu viti er það fyrst og fremst þetta; að höfundur af mjög litlu málsvæði nær máli og nær að koma sínum verkum á framfæri um allan heim. Mér hefði þótt rétt að þessi verðlaun ættu að styðja við slíka höfunda.“

Halldór Laxness tekur á móti Nóbelsverðlaunum í bókmenntum 1955.
 Mynd: Óþekktur - RÚV
Halldór Laxness tók á móti Nóbelsverðlaunum í bókmenntum 1955.

Kristján segir það miður að verðlaunin hafi ekki verið úthugsuð. „Þetta eru okkar einu ríkisbókmenntaverðlaun. Ríkið er að stofna til þessara verðlauna. Fólkið sem situr í nefndinni er fulltrúar frá ráðuneytum, Íslandsstofu og svo framvegis. Mér þykir mjög leiðinlegt að ríkið skuli ekki hafa nennt að hugsa meira um það.“

Fríða Björk segir að orðspor verðlaunanna eigi eftir að mótast eftir því hverjir hljóta þau um ókomin ár, þau standi ekki og falli með því hver sé valinn nú. Það að standa undir verðlaunum sem skipti sköpum útheimti engu að síður mikla vinnu og fjárútlát. „Það er það sem við eigum svo erfitt með á Íslandi að vinna þessa vinnu almennilega, þessa grunnvinnu sem þarf til þess að verðlaunin skipti einhverju máli. Við getum gert þetta vel en það þarf að hugsa þetta mjög djúpt og vel til að þetta standi undir máli til framtíðar og skapi sér sérstöðu.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Rithöfundar mega aldrei gleyma nautninni

Menningarefni

McEwan hlýtur verðlaun Halldórs Laxness

Bókmenntir

Masað í móðurkviði