Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Skiptar skoðanir um Dag ljóðsins

Mynd með færslu
 Mynd:

Skiptar skoðanir um Dag ljóðsins

31.10.2014 - 11:03
Mennta- og menningarmálaráðherra leggur til að 31. október, afmælisdagur Einars Benediktssonar, verði hér eftir nefndur Dagur ljóðsins. Ekki eru allir á eitt sáttir við þessa tillögu ráðherrans en í dag eru 150 ár liðin frá fæðingu skáldsins og athafnamannsins.

Illugi Gunnarsson segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, að hægt væri að halda upp á daginn með ýmsum hætti, til að mynda mætti halda ljóðasamkeppni grunnskóla, veita ungu ljóðskáldi sérstaka viðurkenningu eða efna til annarra viðburða til að auka áhuga á ljóðlist.

Í greininni segir Illugi að Einar hafi skilið manna mest að menning og athafnasemi fari vel saman og geti stutt hvor aðra. Hann hafi bæði verið náttúrudýrkandi, eins og ljóð hans beri með sér en jafnframt viljað nýta þau öfl sem í náttúrunni búa. 

Illugi segir að fáir hafi verið stoltari af landi sínu og þjóð en Einar. Hann hafi haft sérstakt vald á íslenskri tungu og hafi getað komið í orð hugsunum af slíkri lagni, að fjölmargar ljóðlínur hans hafi orðið að spakmælum og orðtökum. Á vefnum tilvitnun.is má finna fjölda tilvitnana í ljóð Einars. 

Hugmynd ráðherra leggst ekki vel í alla. Fjörlegar umræður fara fram á Facebook síðu Kristjáns B. Jónassonar bókaútgefanda. Kristján segist telja undarlegt að gera fæðingardag skálds sem enginn lesi og skipti nánast engu máli í þróun íslenskra bókmennta að degi ljóðlistar. Enginn eftirspurn sé eftir kvæðum hans.

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason svarar og segir að það væri hefnd fyrir Dag íslenskrar náttúru og „canónízeringu“ Ómars Ragnarssonar. Skáldið Þórarinn Eldjárn segir á sama vettvangi að Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember hafi bjargað miklu. Hann vonist til að 31. október bætist við.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri blandar sér um umræðurnar og segir að Dagur ljóðsins gæti vakið athygli á nýútkomnum ljóðabókum og góðu höfundarverki merkra ljóðskálda. Það gæti varla verið slæmt. 

Á fundi borgarráðs í gær lagði Dagur fram tillögu þar sem tekið var undir þær hugmyndir að stytta af Einari, sem nú er á Klambratúni, yrði flutt að Höfða, þar sem skáldið bjó um hríð. Þetta væri í samræmi við áskoranir og erindi aðdáenda skáldsins og tillögu Sjálfstæðisflokksins. 

Útvarpsleikhúsið hefur endurflutt þáttaröðina Einar Benediktsson, maðurinn og skáldið undanfarna sunnudaga í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá fæðingu skáldsins. Hér má finna þættina. 

 

[email protected]