Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skiptar skoðanir á frumvarpi um neyslurými

17.04.2019 - 07:08
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Embætti ríkissaksóknara leggst gegn því að frumvarp um svokölluð neyslurými verði samþykkt á meðan ekki liggur fyrir hvað breytingar verða á heimildum og skyldum lögreglu og ákæruvalds við lögfestingu frumvarpsins. Lyfjafræðingafélag Íslands telur það vel þess virði að halda inn á þessa braut en Félag áfengis-og vímuefnaráðgjafa segja margt í frumvarpinu vera sett fram á óljósan hátt. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gerir margvíslegar athugasemdir við frumvarpið.

Í frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, er kveðið á um að heimilt verði að stofna og reka neyslurými. Markmiðið er að draga úr skaðlegum afleiðingum á notkun ávana-og fíkniefna.  Þetta á að vera lagalega verndað umhverfi þar sem fíklar, eldri en 18 ára, geta neytt fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna, eins og það er orðað á vef ráðuneytisins.

Sex umsagnir hafa borist um frumvarpið, sú ítarlegasta er frá Huldu Elsu Björgvinsdóttur, sviðsstjóra ákærusviðs hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hulda Elsa gerir margvíslegar athugasemdir við frumvarpið en áréttar að embættið sé ekki að hafa skoðun á réttmæti neyslurýma. Sjónarmið um skaðaminnkun hafi mikið vægi. Verði frumvarpið að lögum óbreytt þá sé réttur neytandans aftur á móti ekki tryggður til neyslu á neysluskammti eins og markmiðið sé og óvíst sé um refsileysi starfsmanna neyslurýmis. 

Hulda Elsa nefnir sem dæmi að það verði liggja skýrt fyrir hvort starfsmanni sé heimilt að hjálpa viðkomandi neytenda að sprauta sig en í frumvarpinu sé það ekki tilgreint. Þá sé heldur ekki að finna heimild um það í lögum um að lögreglustjóra geti samið um svokölluð refsilaus svæði.  Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, virðist ósátt með að ekki hafi verið haft samband við embættið  - á engum stigum hafi málið verið unnið í samráði við ríkissaksóknara og því hafi ekki verið boðið að senda umsögn. Embættið tekur undir athugasemdir Huldu Elsu og telur ekki rétt að samþykkja frumvarpið á meðan ekki liggi fyrir hvaða breytingar verði á heimildum og skyldum lögreglu og ákæruvalds.

Lyfjafræðingafélag Íslands er jákvætt fyrir frumvarpinu og segir gott ef það dregur úr því að nálar og sprautur liggi á víðavangi og á opinberum svæðum.  Félagið segir að það verði að vera skýrt kveðið á um ásættanlegt magn og að neyslurýmin verði ekki á nokkurn hátt staður fyrir „viðskipti“ með fíkniefni.  Þá verði einnig að koma fram hvernig aðkomu eða fjarvera lögreglu verði háttað.

Við annan tón kveður í umsögn Félags áfengis-og vímuefnaráðgjafa sem telur margt óljóst í frumvarpinu. Félagið spyr til dæmis hvort allir megi koma í neyslurýmin, sama hvaða vímuefni þeir noti í æð og hvort gert sé ráð fyrir að þarna fari fram einhvers konar aðstoð til að hjálpa fólki í meðferð ef það óskar þess.  Mannréttinda-og lýðræðisráð Reykjavíkurborg styður framgöngu frumvarpsins af heilum hug og fagnar því að þetta „mannréttindamál sé komið á dagskrá þingsins.“

Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ,  spyr í sinni umsögn hvernig verði passað upp á að verkefnið vinni ekki gegn sjálfu sér. Leitast þurfi við að þessi hópur verði alltaf eins lítill og mögulegt sé.  Þá veltir hún því upp hvort markvissari kostir hafi verið skoðaðir sem gætu verið enn betri hér á landi. Þessi hópur sé þekktur og aðgengi að sprautum og nálum hafi alltaf verið gott í apótekum auk þess sem frú Ragnheiður hafi bæst við.