Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skipan dómara komi til kasta Alþingis

26.09.2015 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Formanni Allsherjar og menntamálanefndar finnst það koma til greina að innanríkisráðherra leggi til við Alþingi að Ingveldur Einarsdóttir verði skipuð í Hæstarétt þvert á álit dómnefndar. Dómnefnd eigi ekki að vera undanþegin lögum. Fulltrúar dómnefndar kallaðir fyrir þingnefnd.

Unnur Brá Konráðsdóttir formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis segir niðurstöðu dómnefndar um skipan hæstaréttardómara hafa komið sér á óvart. Hún var gestur Vikulokanna á Rás 1 í morgun.

Unnur Brá segir ljóst að allir umsækjendurnir séu hæfir til að gegna embætti hæstaréttardómara og því hafi val nefndarinnar og áherslur á einn þátt umfram annan geta stutt skipan þeirra allra. Það að dómnefndin hafi, þvert á vilja löggjafans, eingöngu verið skipuð körlum, kalli á skoðun þingsins á málinu.

Kölluð fyrir þingnefnd

„Við tókum þá ákvörðun að fjalla um málið að lokinni kjördæmavikunni og kalla fyrir nefndina fulltrúa frá lögmannafélaginu, dómstólaráði og hæstarétti, til þess að skoða með hvaða hætti löggjafinn þarf að grípa inn í. Það er alveg skýrt að miðað við afstöðu Hæstaréttar að lög um dómstóla komi í veg fyrir að jafnréttislögum sé fylgt, þá þurfi bara að bæta því í lögin. Þannig að jafnréttislögin eigi við um dómstólana,“ sagði Unnur Brá. 

Viljinn enginn

Hún hvatti í júní síðastliðnum til þess að konum yrði fjölgað í hópi Hæstaréttardómara þegar staðan var auglýst. Niðurstaða dómnefndarinnar sé enda sú að allir þrír umsækjendurnir hafi verið hæfir og umsækjendur raðist til skiptis í efstu sætin, þegar horft sé til þátta eins og menntunar, dómarareynslu, lögmannsreynslu, stjórnsýslureynslu auk reynslu af kennslu og fræðastörfum.

„Ég hef ekki verið talsmaður þess að setja kynjakvóta í lög. En þegar allt annað er reynt og það er alveg ljóst að það er enginn vilji til að líta til þessara sjónarmiða eða breyta, finnst mér það vera umræðunnar virði hvort ekki þurfi þá bara að setja kynjakvóta á dómstólana,“ sagði Unnur Brá.

Hún sagði aðspurð ljóst að Hæstiréttur teldi sig ekki þurfa að hlíta jafnréttislögum, og við því yrði löggjafinn að bregðast. 

Ráðherra mæli með Ingveldi

Unnur Brá sagði umhugsunarvert hvort ráðherra eigi í ljósi þess hvernig málið sé vaxið, að nýta sér heimild til að fara með málið í gegnum þingið, það er að leggja til skipan annars umsækjenda en Karls Axelssonar, sem dómnefndin taldi að hljóta ætti stöðuna.

Spurð hvort hún væri þar með að segja að innanríkisráðherra ætti að mæla með skipan Ingveldar Einarsdóttur í stað Karls: „Já, mér finnst það koma til greina,“ sagði Unnur Brá.

Katrín Jakobsdóttir formaður vinstri grænna sagðist í Vikulokunum sammála því að málið yrði rætt í þinginu. Í ljósi þess hversu huglægt mat lægi að baki röðun umsækjenda í mati dómnefndar, kæmi til greina að þingið tæki afstöðu til skipanarinnar. Spurð hvort eðlilegt væri að stjórnmálamenn væru þátttakendur í skipunum dómara við Hæstarétt sagði Katrín:

„Þetta snýst náttúrulega annars vegar um hvort pólitíkin handvelji einstaklinga sem er allt annað mál en að pólitíkin sníði rammann, til þess er pólitíkin. Við erum búin að vera með gild jafnréttislög í landinu í langan tíma. Ef þau teljast ekki vera gild á einhverju sviði samfélagsins, hlýtur það að vera á ábyrgð pólitíkurinnar að skoða það og taka það til umræðu.“

Spurning um traust

„Það skiptir nefnilega máli alveg eins og með sjálfstæði dómstólanna að það er ekki nóg að þeir séu sjálfstæðir og óhlutdrægir og hlutlausir í raun og veru, þeir verða líka að líta út fyrir að vera það,“ sagði Ragnhildur Helgadóttir forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, í viðtali við Vikulokin í dag. Ragnhildur fjallaði um kynjahlutföll í dómstólum landsins í grein í tímariti HR. Þar vakti hún meðal annars athygli á því að ef tíunda dómarastaðan við Hæstarétt yrði skipuð eins og dómnefndin mælist til, sé staðan sú 9-1 körlum í vil.

Ráðherrann staðfesti

Ragnhildur sagði í þættinum að þrátt fyrir að innanríkisráðuneytið hefði ítrekað gert athugasemdir við skipan í dómnefnd um skipan dómara, undanfarin fimm ár, hafi ráðherra í öll skiptin staðfest skipanirnar, sem hann hafi þó talið á svig við jafnréttislög og þannig hvorki látið reyna á lögin né leitað til þingsins um að skýra þau frekar og breyta, ef þurft hafi. Lögin hefðu þannig ekki áhrif á niðurstöður nefndarinnar.