Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skip stöðvuð við ólöglegar veiðar við Líberíu

28.02.2017 - 01:49
epa00854752 A women collects fish that have just been brought ashore by local fishermen in Monrovia, Liberia, Friday 03 November 2006.  EPA/AHMED JALLANZO
Strandveiðar á litlum bátum, ósjaldan kanóum eða öðrum árabátum, eru mikið stundaðar við Líberíuströnd og eru mikilvægur atvinnuvegur. Ólöglegar veiðar togara víðsvegar að úr heiminum litlu fjær Líberíuströndum eru aftur á móti til mikilla vandræða.  Mynd: EPA
Strandgæsla Líberíu stöðvaði nýverið þrjú skip sem staðin voru að ólöglegum veiðum í líberískri landhelgi. Strandgæslan naut aðstoðar náttúruverndarsamtakanna Sea Shepherd við þessar aðgerðir, segir í tilkynningu frá líberíska varnarmálaráðuneytinu. Ólöglegar veiðar eru mikið vandamál við Vesturströnd Afríku og hafa lengi verið. Eitt skipanna sem stöðvað var nú er kínverskt, annað frá Ghana, en þjóðerni þriðja skipsins hefur ekki verið staðfest.

Í tilkynningu frá Sea Shepherd, þar sem samstarfið við strandgæsluna er staðfest, er því haldið fram að þriðja skipið sé spænskur togari undir senegölsku flaggi.  Sea Shepherd leggur skip og 20 manna áhöfn til aðgerðanna, en 10 sjóliðar líberísku strandgæslunnar eru um borð og stjórna aðgerðum, sem hófust fyrir þremur vikum. Aðgerðin kallast Sola Stella og miðar að því að „útrýma algjörlega ólöglegum veiðum í [líberískri] landhelgi," að sögn Davids Dahns, talsmanns varnarmálaráðuneytisins. 

Í tilkynningu Sea Shepherd segir ennfremur að tveir ísraelskir sérfræðingar úr röðum samtakanna leggi sitt af mörkum til aðgerðanna með þjálfun og kennslu. Vitnað er í varnarmálaráðherra Líberíu, Brownie Samukai, sem segist ætla að tryggja það, í eigin persónu, að þeir sem handteknir hafa verið í aðgerðum síðustu vikna muni hljóta ströngustu refsingu sem lög leyfa. „Við ætlum að gera það mjög, mjög ljóst, að tími ólöglegra veiða er liðinn," segir ráðherrann. 

Ólöglegar veiðar undan vesturströnd Afríku hafa lengi valdið Vestur-Afríkuríkjum miklum vandræðum og búsifjum. Talið er að frá þriðjungi og allt upp í helming alls afla á þeirra miðum sé veiddur ólöglega. Efnahagslegt tjón ríkjanna sem þarna eiga lögsögu vegna ólöglegra og óskráðra veiða er metið allt að 1,3 milljarðar bandaríkjadala, eða á milli 140 og 150 milljarðar króna.
 

Ítarlega er fjallað um aðgerðina Sola Stella á heimasíðu Sea Shepherd.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV