
Skip rakst í grjót í hvassviðri
„Það var mjög sterk austanátt í morgun. Hafnsögumaður var um borð og stjórnaði innsiglingunni. Þetta leit verr út en það var í raun og veru. Þeir sáu að þeir kæmust ekki inn í fyrstu tilraun og bökkuðu út aftur. Í seinni tilrauninni gekk þetta ljómandi vel,“ segir Guðmundur Kjartansson, eigandi Iceland Pro Cruises.
Skipið siglir hringinn í kringum landið með erlenda ferðamenn og tíu daga ferð var að ljúka í morgun þegar óhappið varð. Skipið tekur 150 til 200 farþega og um 100 manna áhöfn. Guðmundur segir að flestir farþegarnir hafi verið að borða morgunmat og ekki fundið fyrir óþægindum, heldur hafi þetta verið meira eins og hressileg alda. Farþegarnir hafi svo heyrt af atvikinu þegar þeir komu að bryggju.
Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum, tekur í sama streng og segir að ekki hafi verið hætta á ferðum. Skipið hafi drifið undan vindi. Málið verði sent til Rannsóknanefndar sjóslysa, eins og beri að gera í atvikum sem þessum.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sjá atvikið úr ráðuneyti sínu og tók myndir.