Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skilur óánægju fólks með nafnbreytinguna

02.06.2017 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árni Gunnarsson, forstjóri Air Iceland Connect, sem áður hét Flugfélag Íslands segist skilja óánægju fólks með nafnabreytinguna. Viðbrögðin við breytingunni hafa að mestu verið neikvæð og fólki aðallega verið umhugað um verndun íslenskrar tungu.

 

„Ég skil það mjög vel og þykir að mörgu leyti vænt um slík viðbrögð því við erum þá fyrirtæki sem skiptir máli og fólki finnst skipta máli það sem við erum að gera,“ sagði Árni í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

 

Ákveðið hefði verið að breyta nafni félagsins vegna þess að áfangastaðir þess væru ekki lengur aðeins innanlands. Af ellefu flugleiðum séu fjórar innanlands og sjö á erlendum vettvangi. Hann segir að félagið hafi frá árinu 1997 notað tvö nöfn; Flugfélag Íslands og Air Iceland.  

Árni segir félagið haldi áfram að halda þjóðerni þess á lofti og aðsetur þess verði áfram á Akureyri. Það sé ekkert nýtt að fyrirtæki séu með erlend heiti hér á landi. Fyrirtækið heiti áfram Flugfélag Íslands í Þjóðskrá og fyrirtækjaskrá.

Nafnbreytingin hjálpi við markaðssetningu hjá félaginu, það sé einfaldara að koma fram undir einu nafni.  „Við töldum að það væri erfitt að byggja upp tvö vörumerki samhliða heldur að vörumerkið sem við erum að nota verði að standa eitt og gilda á öllum vettvöngum, hvort sem er innanlands eða utan.“

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV