Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skilur mótmæli gegn skoðunum Kjærsgaard

21.07.2018 - 13:45
Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kveðst hafa skilning á því að fólk mótmæli skoðunum Piu Kjærsgaard, þingforseta Danmerkur, sem hélt ávarp á hátíðarþingfundi Alþingis á Þingvöllum í vikunni. Sjálfur sé hann enginn aðdáandi þeirra sjónarmiða sem danski þingforsetinn hafi staðið fyrir á sínum stjórnmálaferli. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir mikilvægt að sýna í verki að viðhorf danska þingforsetans í málefnum innflytjenda séu ekki liðin.

„Varðandi mótmælin, þá hef ég sagt það að mér þykir leitt að það féll viss skuggi á þetta, vegna þess að menn mótmæltu komu forseta danska þingsins. Vel að merkja þá skil ég vel það fólk sem er ákaflega ósátt við hennar skoðanir. Ég er í hópi þeirra, ég er enginn, og minni en enginn, aðdáandi þeirra sjónarmiða sem Pia Kjærsgaard stóð fyrir í dönskum stjórnmálum á meðan hún var þar virkur þátttakandi. Nú er hún orðinn forseti danska þingsins og búin að vera í nokkur ár,“ sagði Steingrímur í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Hann sagði að það hafi verið ljóst frá upphafi undirbúnings fundarins að Danir og danska þingi yrðu í sérstöku hlutverki sögunnar vegna. Samningur við Dani hafi tryggt Íslendingum fullveldi.

Einnig var rætt við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingflokksformann Pírata, í Vikulokunum. Hún sagði að ákvörðun Pírata um að sniðganga fundinn verði án efa alltaf umdeild. Mikilvægt sé að sýna í verki að viðhorf gagnvart innflytjendum, eins og þau sem Kjæarsgaard standi fyrir, séu ekki liðin.

„Á tímamótum sem þessum, sem við erum að upplifa, þá er engin tilviljun að Trump er að læsa börn í búrum. Hann er að athuga hvar mörkin liggja. Fasistar og rasistar eru að prufukeyra þetta módel um allan heim. Þeir eru að koma lýðræðinu okkar úr umferð og að athuga hvers konar mannvonsku við þolum,“ sagði Þórhildur Sunna. 

Betra hefði verið að danski þingforsetinn hefði fengið að stija fundinn en ekki ávarpa hann, að mati Þórhildar Sunnu. Með ávarpinu hafi Kjærsgaard verið veitt ákveðin viðurkenning.