Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skilorðsbundið fangelsi fyrir skútustuld

13.12.2018 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Þjóðverjinn sem stal skútu úr Ísafjarðarhöfn í haust hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Vestfjarða. Hann gekkst við því að hafa stolið skútunni og var samvinnuþýður á meðan rannsókn málsins stóð.

Maðurinn braust inn í seglskútuna Inook með skrúfjárni í Ísafjarðarhöfn laugardagskvöldið 13. október síðastliðinn og sigldi skútunni svo út úr höfninni. Tilkynnt var um þjófnaðinn daginn eftir. Þjóðverjinn hafði þá komist vestur fyrir Vestfirði og var á Breiðafirði þegar þyrla Landhelgisgæslunnar, sem kölluð hafði verið til leitar, kom auga á skútuna. Landhelgisgæslan skipaði honum til hafnar í Rifi á Snæfellsnesi þar sem hann var handtekinn. Maðurinn segist hafa ætlað að sigla skútunni til Reykjavíkur og kynnast borginni.

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hafi ekki verið með sjálfum sér þegar hann braust inn í skútuna og sigldi henni á brott. Hann hafi komið til sjálfs sín síðar um borð í bátnum en ákveðið að halda för sinni áfram. Í dómnum segir að óverulegt tjón hafi hlotist af verknaði mannsins. Ekki sé hægt að meta það sem svo að hann hafi ætlað að slá eign sinni á skútuna. Hann hafi sjálfur átt bát í Ísfjarðarhöfn sem gengið hafi verið þannig frá að ólíklegt þykir að hann hafi ætlað að vera lengi í burtu.

Þjóðverjinn var í farbanni frá því að hann var handtekinn fram á mánudag. Hann var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til þess að greiða rúmlega eina milljón krónur í sakarkostnað.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV