
Nú þegar líður að páskum er ekki úr vegi að rifja upp opinberar reglur um dansleiki og skemmtanahald um páskahátíðina. Þær má finna á vef lögreglunnar. Þar kemur fram að það má hafa opið á skírdag til miðnættis en ekki á föstudaginn langa þá verður allt að vera lokað til miðnættis. Laugardaginn fyrir páska má vera opið til klukkan þrjú en lokað á páskadag til miðnættis. Aðfararnótt annars í páskum má skemmta sér frá miðnætti til klukkan hálf fimm.
Þrátt fyrir reglurnar eru gerðar undantekningar á föstudagnn langa og Páskadag fyrir listsýningar, tónleika, leiksýningar og kvikmyndasýningar. Þessar reglur taka þó ekki til skíðasvæða því þau eru víða opin yfir páskana.
Höfuðborgarsvæðið
Opið er í Bláfjöllum og Skálafelli frá skírdag til annars dags páska frá klukkan 10 - 17. Sundlaugar í Reykjavík eru allar opnar á skírdag frá 9 til 18 en lokaðar á föstudaginn langa nema Árbæjarlaug, Laugardalslaug og Vesturbæjarlaug eru opnar frá 10 - 18. Þær eru líka opnar á páskadag. Allar sundlaugar eru opnar annan í páskum.
Opið verður í Fjölskyldu og húsdýragarðinum alla páskana frá kl. 10 - 17 en lokað í Kringlunni og Smáralind nema á Skírdag er opið frá 13 til 18.
Vestfirðir
Skíðavikan á Ísafirði verður sett í dag, miðvikudag, í miðbæ Ísafjarðar með skrúðgöngu og skíðasprettgöngu. Vegleg dagskrá skíðavikunnar á Ísafirði hófst í gær en framundan eru tónleikar, margslags skíðauppákomur, samflot í sundlauginni í Bolungarvík og messur.
Dagskrá skíðavikunnar á Ísafirði er samofin tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður sem fer fram á föstudag og laugardag en upplýsingar um dagskrána má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar. Aldrei fór ég suður verður í beinni útsendingu á Rás 2, RÚV.is og RÚV 2 bæði kvöldin.
Á föstudag verður rokkfundur alþýðunnar og tónleikar hefjast í Kampaskemmunni, nýjum tónleikastað hátíðarinnar, klukkan 20 bæði á föstudag og laugardag. Á laugardaginn verður jafnframt dagskrá í sundlauginni á Suðureyri. Fjölbreytt dagskrá verður einnig í nágrannabyggðum og bæjum, frá Þingeyri til Bolungarvíkur.
Austurland
Á Austfjörðum eru skíðasvæðin tvö, í Oddskarði og í Stafdal, megin aðdráttarafl yfir hátíðarnar. Gott færi er á báðum svæðunum þó snjóa hafi tekið upp í byggð fyrir austan. Páskafjör er yfirskrift útivistarhátíðar í Fjarðabyggð en sérstakar kvöldopnanir eru á báðum svæðunum, á fimmtudag og laugardag í Oddskarði en á föstudaginn langa í Stafdal. Fyrir útivistarfólk eru ýmsir sérviðburðir sem hægt er að kynna sér á dagskrá hátíðarinnar.
Í Neskaupstað eru tónleikar í Egilsbúð bæði föstudag og laugardag og á Egilsstöðum í Valaskjálf á föstudaginn langa. Fleiri viðburði sem á döfinni eru yfir hátíðarnar má sjá hér.
Norðurland
Íslensku vetrarleikarnir hefjast á morgun og standa í viku á Norðurlandi. Þó hápunktur vetrarleikanna sé helgina eftir páska verður margt um að vera næstu daga. Efnt verður til fyrsta snjóblakmóts Íslands á skírdag og á laugardag verður páskaeggjamót í samhliðasvigi og fjallabrun á hjólum í Hlíðarfjalli auk páskaeggjaleitar Hjólreiðafélags Akureyrar.
Ýmislegt verður um að vera á skíðasvæðum. Dalvíkingar bjóða upp á heldrimannamót í svigi og bretta- og skíðagarð fyrir ofurhuga. Á skíðasvæðum Fjallabyggðar verður boðið upp á skíðagöngumót og skíðadiskó. Í Tindastóli verður skíðagöngumót og furðufataskíðadagur.
Suðurland
Sundlaugar Árborgar á Selfossi og Stokkseyri verða opnar yfir páskahátíðina. Á Selfossi verður opið frá 10 til 18 á skírdag, föstudaginn langa og páskadag. Og á Stokkseyri frá 10 til þrjú nema á páskadag þá er lokað