Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skeytin hafa ferðast 14 þúsund kílómetra

14.01.2017 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tvö flöskuskeyti sem kastað var í hafið við Íslandsstrendur fyrir rúmu ári síðan hafa ferðast rúma 14 þúsund kílómetra í sjónum og stefna nú í átt að Skotlandi. 

Margir hafa fylgst spenntir með ferðalagi tveggja flöskuskeyta sem Ævar vísindamaður kastaði í sjóinn 10. janúar í fyrra. Hann naut liðsinnis þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar. Skeytin fóru í hafið úti fyrir Reykjanesvita. Hægt er að fylgjast með ferðalagi flöskuskeytanna hér. 

„Annars vegar var pælingin að búa til flöskuskeyti sem hægt væri að fylgjast með og hins vegar líka að sýna það og sanna, að ef maður hendir einhverju í hafið, til dæmis eins og rusli, að það hverfur ekkert. Það fer í ferðalag og þetta minnir okkur líkar svolítið á að við þurfum að hugsa um hvar við látum ruslið okkar frá okkur og hvernig við göngum frá því,“ segir Ævar. 

Verkís hannaði skeytin fyrir Ævar og þau eru búin GPS-sendum svo hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra, sem fjölmargir gera inn á vef KrakkaRÚV. Í skeytunum er rafhlaða sem dugar í tvö ár og því er vonast til þess að þau nái að landi fyrir þann tíma. 

„Þau byrjuðu á því að stefna í áttina til Grænlands, það var búið að spá fyrir og reikna aðeins út að þau gætu hugsanlega stefnt í áttina til Noregs. Þau ákváðu að fara þvert á allar spár og fóru akkúrat í hina áttina,“ segir Ævar. 

„Þau fóru svo til Grænlands, síðan góðan hring og aftur til Íslands, og við héldum að þetta yrði kannski bara hringavitleysa fram og til baka, sem betur fer var það ekki. Svo í sumar þá stefndu bæði skeytin í áttina að Nýfundnalandi.  Svo fóru þau aðeins meðfram því og stefndu svo núna nýlega í áttina að Skotlandi, og annað þeirra er við það að koma í land þar. Það þýðir samt ekki endilega að það muni koma í land þar. Þessi skeyti, það er mjög gaman að fylgjast með þeim vegna þess að þau fara eiginlega aldrei þangað sem maður býst við, þannig það stefnir allt í að þau, allavega annað þeirra, hugsanlega annað, á Skotlandi. Það þarf samt ekkert að vera, þannig að maður fylgist spenntur með.“
>> 

 

viktoriah's picture
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður