Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skerða aðstoð til Afganistans um milljarð dollara

epa08314911 A handout photo made available by the Afghan Presidential Palace shows Afghanistan President Mohammad Ashraf Ghani (R) receiving US Secretary of State Mike Pompeo (L) at the presidential palace in Kabul, Afghanistan, 23 March 2020.  EPA-EFE/PRESIDENTIAL PALACE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Ashraf Ghani, forseti Afganistans á fundi í Kabúl, 23. mars 2020.  Mynd: EPA-EFE - PRESIDENTIAL PALACE
Bandaríkjastjórn sker efnahagsaðstoð sína við Afganistan niður um milljarð Bandaríkjadala, jafnvirði 140 milljarða króna, þar sem ekkert gengur að miðla málum og lægja öldur milli forseta landsins og helsta keppinautar hans. Þetta var tilkynnt í framhaldi af fundum Mikes Pompeos, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með þeim Ashraf Ghani, forseta Afganistans, og helsta keppinautar hans á stjórnmálasviðinu, Abdullah Abdullah.

Í fréttatilkynningu segir Pompeo að framganga þeirra Ghanis og Abdullahs séu Bandaríkjunum mikil vonbrigði, enda hafi átök þeirra slæmar afleiðingar í för með sér fyrir Afganistan og sameiginlega bandamenn ríkjanna. „Þessar illdeilur hafa því miður skaðað samband Bandaríkjanna og Afganistans, og eru óvirðing við alla þá [Bandaríkjamenn og Afgani] sem fórnað hafa lífi sínu og afkomu til að byggja upp framtíðarsamfélag í þessu landi," skrifar Pompeo.

Ghani var nýlega lýstur sigurvegari í forsetakosningum sem fram fóru í landinu í fyrra, en Abdullah viðurkennir ekki úrslitin og hefur sjálfur lýst sig réttkjörinn forseta. Rígurinn milli þeirra hefur tafið ýmislegt sem kveðið er á um í samkomulagi Bandaríkjamanna og Talibana, svo sem fækkun og síðar brottför bandarískra hermanna frá landinu og formlegar friðarviðræður milli Talibana og Kabúlstjórnarinnar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV