Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skemmtiþáttur fyrir alla sem fíla íslenskt mál

Mynd með færslu
 Mynd:

Skemmtiþáttur fyrir alla sem fíla íslenskt mál

25.02.2019 - 16:12

Höfundar

Nýr skemmtiþáttur um íslenska tungu verður sýndur á RÚV næsta haust. Stjórnendur þáttarins eru Björg Magnúsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason. Þau lofa fjölbreyttu og skemmtilegu hlaðborði sem tengist íslensku máli með einum eða öðrum hætti.

Kappsmál er þáttur fyrir alla sem fíla* íslenska tungu, segir Björg Magnúsdóttir, sem kemur til með að stjórna þættinum ásamt Braga Valdimar Skúlasyni sem margir ættu að kannast við úr verðlaunaþættinum Orðbragði sem sýndur var á RÚV fyrir nokkrum árum.

„Hann ætti að höfða til allra sem langar að skyggnast betur um ranghala tungumálsins og fræðast um ógurlegt ríkidæmi þess. Þátturinn er líka fyrir þá sem hafa gaman af því að horfa á aðra kljást við miserfiðar en skemmtilegar þrautir í sjónvarpi,“ segir Björg. 

Í þáttunum verður boðið upp á taugatrekkjandi stafsetningarkeppni, leiki sem reyna á hversu hratt fólk getur hugsað og kastað fram réttu svari, sérhannaða útgáfu af hengimanni og fleira.

„Markmiðið er að bjóða upp á fjölbreyttan skemmtiþátt sem má læra pínulítið af í leiðinni – dagskrá sem brúar kynslóðabilið og stórfjölskyldan getur horft saman á. Við höfum allavega verið í hláturskasti allt þróunarferlið, sem hefur verið í gangi síðan í september og vonum sannarlega að sú gleði skili sér heim í stofu.“ 

Málfarsráðunautur RÚV, Anna Sigríður Þráinsdóttir, hefur verið stoð og stytta allan undirbúningstímann segir Björg. „Svo er meðstjórnandi minn Bragi Valdimar Skúlason líka einn sá alklárasti í bransanum. Mig minnir að hann sé með tvöfalt doktorspróf í þágufallssýki og pottþétt öllu öðru sem viðkemur íslenskunni. Með þannig samstarfsfólk á kantinum eru nú flestir vegir færir.“ 

Kappsmál á rætur að rekja sjónvarpsþáttarins Orðbragðs sem Bragi Valdimar stýrði ásamt Brynju Þorgeirsdóttur. Brynja hefur teygt sig yfir Atlantshafið og snert á undirbúningi þáttanna en hún er stödd í Cambridge í Englandi þar sem hún stundar doktorsnám. „Hún hefur komið með frábæra punkta. Enda algjör kanóna í sjónvarpsfræðum,“ segir Björg að lokum.

Kappsmál er samstarfsverkefni RÚV og framleiðslufyrirtækisins Skots og leikstjórar eru Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson.

*Sögnin fíla merkir að líka eitthvað vel, hafa dálæti á einhverju. Hún er tökusögn úr ensku og af mörgum talin óformleg.