Skemmtilegra að fara í útilegu á veturna

17.02.2020 - 08:00
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn
„Þetta er mjög gaman. Þetta er meira vesen en á sumrin en miklu skemmtilegra,“ segir Hannes Snævar Sigmundsson skáti í skátafélaginu Klakki á Akureyri sem fór ásamt fleiri ungmennum í skátaútilegu í Vaðlaheiði á dögunum. „Það er bara meira spennandi að gera þetta í snjó og snjórinn er svo miklu skemmtilegri. Þú getur notað ímyndunaraflið til að búa til alls konar hluti eins og snjóhús og veggi og þannig.“

Landinn leit við á útilífsnámskeiði Skíðasamgands skáta. Þar voru krakkarnir fræddir um ýmis atriði tengd vetrarútivist svo sem klæðnað, búnað, matreiðslu og fleira. 

Embla Þórgnýsdóttir Dýrfjörð, í skátafélaginu Klakki á Akureyri, segir að það að fara í útilegur á veturna sé einmitt eitt það skemmtilegasta við skátastarfið. 

„Ég er bara búin að vera í skátunum í þrjú ár. Eina eftirsjáin mín er að hafa ekki byrjað fyrr. Ég bara elska þetta,“ segir Embla. 
 

 

thorgunnuro's picture
Þórgunnur Oddsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Landinn