Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skemmtilegar bækur um alvöruna í heiminum

Mynd: Kápa / Kápa

Skemmtilegar bækur um alvöruna í heiminum

28.10.2018 - 22:53

Höfundar

Íslendingar tilnefna til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs bækur sem ætlaðar eru ólíkum aldursflokkum. Bækurnar fjalla báðar um alvarleg mál í heiminum í dag með viðeigandi hættir fyrir þann aldurshóp sem þær eru ætlaðar. Þetta er skáldsaga Kristínar Helgu Gunnarsdóttur Vertu ósýnilegur - Flóttasaga Ishmaels og mynda- og textabókin Skrímsli í vanda eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güttler og Rakel Helmsdal.

Vertu ósýnilegur - flóttasaga Ishmaels segir sögu Ishmaels sem flýr ásamt afa sínum frá Sýrlandi og ferðast uppeftir Evrópu þar til hann endar á Íslandi, nánar tiltekið í Kópavoginum.  Þetta er ákaflega spennandi saga með sterkum persónum sem fjallar vissulega um svo erfiða hluti að við vellystinga Vesturlandabúar getum varla sett okkur inn í þá. Kristínu Helgu tekst þó að færa þessa hluti nær okkur, kynna okkur fyrir fólki sem í rauninni er alveg eins og við öll, frændur okkar, vinir og fjölskylda hér heima í öryggi Íslands. Sagan er sögð með þeim hætti að fréttir fjölmiðla af flóttamannavanda heimsins verða skiljanlegri yngra fólki. Vertu ósynilegur. Flóttasaga Ishmaels var Bók vikunnar 2. febrúar síðastliðinn. Hér má hlusta á brot úr bókinni og viðtal við höfundinn.

Skrímsli í vanda fjallar líka um stríð og hörmungar, ef svo er að skipta, en í fullu samræmi við þann aldurshóp sem henni er ætlað að höfða til og þar gegna myndirnar mikilvægu hlutverki. Sagan segir frá því hvernig litla og stóra skrímslið, sem lesendur fyrri skrímslabóka þekkja, sitja uppi með loðna skrímslið sem ekki vill fara heim til sín því þar er allt svo hræðilegt. Orsakir þessa eru aldrei orðaðar beint þannig að hver og einn getur túlkað þær út frá sinni reynslu. Hér er tekist á við stórar siðferðilegar spurningar í samræmi við þroska þeirra sem lesa eða lesið er fyrir en bækurnar eru ætlaðar yngstu bókormunum. Fyrir Skrímsli í vanda fengu höfundarnir Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka árið 2017.