Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skemmtileg og hugmyndadrifin spennusaga

Mynd:  / 

Skemmtileg og hugmyndadrifin spennusaga

06.12.2018 - 09:25

Höfundar

Sigríður Hagalín rithöfundur og fréttamaður vakti talsverða athygli með sinni fyrstu bók sem kom út árið 2016. Nú er Sigríður mætt með sína aðra bók, Hið heilaga orð og telja gagnrýnendur Kiljunnar að Sigríði takist vel upp og líkja henni meðal annars við Dan Brown.

Sigríður Hagalín Björnsdóttir hefur sagt landsmönnum fréttir síðustu ár og er einn umsjónarmanna Kastljóss. Hún gaf út sína fyrstu skáldsögu, Eyland, árið 2016 þar sem hún tókst á við spurningar um hvað sé að tilheyra fjölskyldu og það að vera Íslendingur. Nýjasta bók Sigríðar heitir Hið heilaga orð og þykir bæði hugmyndarík og spennandi.  

Hið heilaga orð fjallar um unga konu sem hverfur af heimili sínu, frá nýfæddu barni. Lögreglan er ráðalaus, en fjölskyldan sendir bróður hennar að leita hennar. Til að leysa ráðgátuna þarf hann að rekja slóð hennar í framandi heimi og takast á við óvenjulega fortíð fjölskyldunnar. Sunnu Dís Másdóttur fannst allt ganga vel upp í bókinni. „Mér fannst hún halda rosalega vel á þessum þráðum, bæði baksögunni og þessari fléttu þar sem hann er að leita systur sinnar. Mér fannst svo aðeins í lokin, þegar úrlausnin er að koma og hápunktur fléttunnar þá missti hún mig aðeins en fram að því var ég mjög ánægð,“ segir Sunna Dís. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Þorgeir Tryggvason og Sunna Dís Másdóttir ræddu bókina Hið heilaga orð eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur í Kiljunni.

Þorgeir Tryggvason er sammála sessunauti sínum um að bókin sé vel heppnuð og gangi vel upp í alla staði. Hann segir hana að öðrum þræði hugmyndadrifna spennusögu og líkir bókinni við vinsæl höfundarverk Dans Brown. „Það sem gerist síðan og tekur bókina upp um deild er það að hún er líka karakterdrifin. Þetta er ofsalega vel teiknaðir karakterar. Þessi systkin og mæðurnar báðar. Mér fannst bókin afskaplega skemmtileg aflestrar og ganga upp. Ég var eiginlega allan tímann að kvíða því að hún myndi valda mér vonbrigðum, því það er búið að leggja svo mikið inn. Þetta er svo spennandi, þetta hvarf og vísbendingarnar eru svo áhugaverðar. Mér fannst hún næstum því missa boltann við lokin en mér fannst hún ekki missa hann alveg,“ segir Þorgeir Tryggvason. 

Sunna Dís bætir því við að í lok bókarinnar rétti sagan sig af og lítið bréf hafi hjálpað til úrlausna í minni þráðum sögunnar. „Verulega skemmtileg lesning, myndi ég segja,“ segir Sunna Dís.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hið heilaga orð – Sigríður Hagalín

Bókmenntir

Eyland - Sigríður Hagalín